Ástæðan er að Tyson glímir við magasár. Hann þurfti læknisaðstoð eftir flugferð frá Los Angeles til Miami síðastliðinn sunnudag. Í fyrstu talaði Tyson um að þetta myndi ekki hafa áhrif á bardagann en það breyttist eftir síðustu læknisheimsókn kappans.
Í tilkynningu frá Tyson kemur fram að læknirinn hafi ráðlagt honum að æfa létt næstu vikurnar en eftir það mætti hann fara aftur á fullt.
Bardaganum er því frestað en honum er ekki aflýst. Nýr keppnisdagur verður tilkynntur 7. júní og það er enn stefnan að bardaginn fari fram á AT&T Stadium í Arlington í Texas sem er heimavöllur Dallas Cowboys.
„Ég vil þakka öllum stuðningsmönnum mínum fyrir að standa með mér í þessu og skilja hvað er í gangi. Því miður, vegna þess að magasárið tók sig upp, hefur mér verið ráðlagt að létta æfingar mínar í nokkrar vikur til að hvíla mig og ná mér. Líkaminn er í betra standi en hann hefur verið síðan á síðustu öld og ég fer fljótlega að æfa aftur á fullu,“ sagði Mike Tyson í yfirlýsingu.
„Jake Paul, þetta hefur gefið þér smá tíma en á endanum verður þú samt sleginn niður og út úr hnefaleikaheiminum fyrir fullt og allt. Ég kann að meta þolinmæði allra og get ekki beðið eftir því að bjóða ykkur upp á ógleymanlega frammistöðu seinna á þessu ári,“ sagði Tyson.
Mike Tyson, fyrrum heimsmeistari í þungavigt, heldur upp á 58 ára afmælið sitt í lok júní en Jake Paul er 27 ára. Tyson hefur ekki unnið opinberan boxbardaga síðan 2003. Á sínum tíma var hann aftur á móti besti þungavigtaboxari heims og margfaldur heimsmeistari.