Tíska og hönnun

„Tilfinningaþrungið að fá að fylgja myndinni í flík sem þessari“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Súperstjarnan Elín Sif Hall er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Súperstjarnan Elín Sif Hall er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Pierre Suu/GC Images

Leikkonan og tónlistarkonan Elín Sif Hall hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi undanfarin ár, bæði í tónlistinni og á stóra skjánum. Hún skein skært á rauða dreglinum í Cannes á dögunum í fötum frá tískurisanum Chanel og býr yfir einstökum stíl sem vekur athygli. Elín Sif Hall er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Elín Hall skein skært á rauða dreglinum í Cannes þegar hún fylgdi kvikmyndinni Ljósbrot sem hún fer með stórt hlutverk í.Mustafa Yalcin/Anadolu via Getty Images

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Ætli það sé ekki bara tungumálið sem hún býr yfir. Sagan sem fólgin er í því hvernig þú tjáir þig í gegnum tísku. Ein flík getur stundum sagt meira en 1000 orð. Fyrir einhvern sem brennur fyrir sögum er tískan mjög áhugaverð.

Elín heillast að tungumáli og sögu tískunnar.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Ég á svona loðkraga sem ég hnýtti saman úr einhverjum efnaafgöngum sem ég fann í nytjamarkaði fyrir nokkrum árum. Maðurinn sem seldi mér þá spurði mig hvort þetta væri tuskuhundur og rukkaði mig svona 200 krónur fyrir. Ég hef gengið með þetta sem kraga eða trefil síðan. Mér þykir asnalega vænt um þessa flík og væri miður mín ef ég myndi týna henni.

Kraginn er í miklu uppáhaldi hjá Elínu.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ekki að staðaldri nei. Ég eyði mestum tíma í að leita að fötunum mínum því ég á alltof mikið af þeim. Svo finnst mér ég eyða óratíma í að þvo þau, ganga frá þeim og losa mig við þau. 

Það koma tilefni þar sem ég get ofhugsað fataval og verið lengi að því. Þá er vandamálið blessunarlega oftar en ekki að ég á of mikið og þarf að velja.

Elín segist stundum eiga erfitt með að velja flíkur þar sem hún eigi of mikið af þeim.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég held ég klæði mig mest bara eftir skapi og tilefnum. Ef ég er að flytja tónlist þá geng ég kannski aðeins lengra í einhverri tilraunastarfsemi en ég vil alltaf þjóna tilfinningunni í því sem ég er að flytja. Ég finn mig vel í jarðlitum eða neutral litum og ég held að minn helsti innblástur sé náttúran í kringum mig. 

Það eru ótrúlega margir flottir íslenskir fatahönnuðir sem eru mun meira með puttan á púlsinum hvað þetta varðar og búa til flíkur sem vitna áferðir og svipi úr íslensku landslagi. Mér finnst það mjög skemmtilegt í bland við eitthvað „dagsdaglegra“.

Elín klæðir sig eftir tilfinningu og hefur gaman að því að leika sér meira með stílinn þegar að hún er að koma fram.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Sjálfsagt hefur stíllinn manns breyst með tíðaranda og þroska í gegnum árin. Ég var til dæmis alltaf, alltaf í hælum og í kápu í menntaskóla því ég hef alltaf haft gaman að því að klæða mig upp. 

En þegar ég fór í leiklistarnám í háskóla fór að skipta mig máli að klæða mig þægilega. Ég eignaðist allt í einu tugi para af bómullarbuxum og íþróttaskóm og hætti að geta gengið á hælum.

Í dag hef ég kannski fundið einhvern meðalveg. Ef ég er að vinna við leiklist, í tökum eða æfingaferli, finnur þú mig líklegast í jogging-galla og strigaskóm en annars er ég yfirleitt nokkuð útpæld í klæðaburði.

Í háskóla fór Elín meira að klæða sig í þægileg föt eftir aðstæðum en hefur gaman að því að pæla í flíkunum.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Já, ég hef gert það síðan ég man eftir mér. Það er líka smá ritúal og svona loforð inn í daginn að gefa sér smá tíma og hafa sig til. Ég vil alltaf mun frekar mæta of fín en ekki nógu fín.

Elín segist frekar vilja mæta of fín en ekki nógu fín.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Ég er aðallega ótrúlega pikkí á skó. Ég get ekki gengið í smágerðum skóm. Ég vil helst alltaf vera í klossum eða á skóm með þykkum botni. Annars finnst mér ég berfætt. 

Ég vil líka helst alltaf vera í skóm og á mest af inniskóm. Ég hata að ganga á sokkum meira en ég hata ökklasokka, sem ég hef litla unun af.

Og svo hef ég aldrei skilið belti. Ég hef aldrei verið á þeirri skoðun að belti bæti neitt sérlega miklu við outfit.

Elín er alls ekki hrifin af smágerðum skóm og unir sér vel í grófum skóm.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Ætli það sé ekki gullkjóllinn frá Chanel sem ég fékk fyrir frumsýninguna á Ljósbrot í Cannes. Það var þvílíkur heiður að fá að vera klædd af þeim tískurisa og vinna með stílistum og klæðskerum - fagfólki fram í fingurgóma. Gullkjóllinn var úr nýrri línu frá þeim og um leið og ég sá hann vissi ég að hann væri kjóllinn fyrir þetta tilefni.

Myndin, Ljósbrot, gerist á milli tveggja sólsetra í íslensku sumarbirtunni. 

Liturinn appelsínugulur er ákveðin þráður í gegnum myndina sem eins konar tákn fyrir sorgina sem Una, karakterinn minn, er að kljást við. Það var tilfinningaþrungið að fá að fylgja myndinni í flík sem þessari og finna ljósin brotna á kjólnum. 

Svo fannst mér hann líka bara ekkert eðlilega flottur og gaman að fá að vera fulltrúi Chanel á svona glæsilegri hátíð.

Elín var stórglæsileg í Chanel í Cannes.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Þetta er kannski eitthvað sem ég hef verið að reyna að tileinka mér meira síðustu ár og kemur frá mömmu minni. Hún hvatti mig alltaf til að fara fyrst í búðir bara til þess að máta föt og bíða svo í nokkra daga og sjá hvaða flíkur ég gat ekki hætt að hugsa um. 

Elín segir góða reglu að máta fyrst fötin og gefa sér svo tíma til að ákveða hvort hún vilji kaupa þau.Aðsend

Þá getur maður farið aftur og keypt bara þær sem maður elskar. Þetta er gott ráð til að sporna við því að kaupa of mikið, eiga of mikið og enda með föt sem þú gengur ekki í.

Hér má fylgjast með Elínu Sif Hall á samfélagsmiðlinum Instagram


Tengdar fréttir

Alltaf að stela fötum af kærastanum

Fyrirsætan Nadía Áróra Jonkers elskar að klæða sig upp og gefur sér góðan tíma til að skipuleggja klæðnað fyrir þemapartý. Hún hefur engin boð eða bönn þegar að það kemur að tískunni, er með fjölbreyttan og einstakan stíl, fer sínar eigin leiðir og heldur ekki aftur af sér í fatavali. Nadía Áróra er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Blessunarlega ekkert stoppaður af foreldrum mínum“

Tískuáhugamaðurinn og lífskúnstnerinn Jón Breki Jónas er óhræddur við að tjá sig í gegnum tískuna og fer sínar eigin leiðir í klæðaburði. Jón breki er alinn upp í Danmörku en hefur verið búsettur á Íslandi síðastliðin sjö ár. Hann lifir og hrærist í tískuheiminum en stefnir á markaðsfræði í danska háskólanum KEA og elskar að ferðast. Jón Breki er viðmælandi í Tískutali.

„Þegar manni líður vel í eigin skinni skín það í gegn“

Tískuskvísan Fanney Ingvarsdóttir starfar sem samfélagsmiðlasérfræðingur hjá Bioeffect og hefur gaman að tjáningarformi tískunnar. Á unglingsárunum var Stjörnugallinn einkennisbúningur Fanneyjar sem æfði handbolta og fótbolta af fullum krafti en eftirminnilegasta flíkin er líklega síðkjóll frá Ungfrú Ísland. Fanney er viðmælandi í Tískutali.

Fataherbergið seldi henni íbúðina strax

Ofurskvísan Anna Björk er nýútskrifuð úr meistaranámi í mannauðsstjórnun og elskar fjölbreytileika tískunnar. Hún er viðmælandi í Tískutali.

Strangheiðarleg dreifbýlistútta og lopapeysan í uppáhaldi

Lífskúnstnerinn Ingunn Ýr Angantýsdóttir hefur gaman að því hvað tískan getur verið óútreiknanleg. Hún er tveggja barna móðir búsett í Ólafsvík og lýsir sjálfri sér sem strangheiðarlegri dreifbýlistúttu á Snæfellsnesi. Ingunn Ýr er með einstakan og glæsilegan stíl en hún er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Frá naglalakki hjá ömmu í iðnaðarmann í skítugum fötum“

Stílistinn, hönnuðurinn og lífskúnstnerinn Alexander Freyr Sindrason hefur gríðarlegan áhuga á tísku og hefur meðal annars hannað fatnað á poppstjörnuna Patrik Atla eða PBT. Hann elskar hvernig tískan getur brotið upp á hversdagsleikann og gert lífið skemmtilegra en Alexander er viðmælandi vikunnar í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×