Þegar um hálftími var til lendingar í Los Angeles var óskað eftir aðstoð fyrir Tyson. Hann fann fyrir svima og ógleði vegna magasárs.
Hugað var að gamla heimsmeistaranum í þungavigt og samkvæmt hans fólki er ástand hans gott og hann þakklátur heilbrigðisstarfsfólkinu um borð.
Talsmaður Tysons sagði jafnframt ekkert hæft í fréttum þess efnis að lendingu hafi verið frestað vegna ástands hans. Seinkunina megi rekja til vandamáls með loftræstinguna í vélinni.
Tyson snýr aftur í hringinn þegar hann mætir Paul á heimavelli Dallas Cowboys í Texas 20. júlí næstkomandi. Þá verður bardaginn sýndur beint á Netflix.
Hinn 57 ára Tyson barðist síðast gegn Roy Jones Jr. fyrir fjórum árum. Síðasti alvöru bardagi hans var gegn Kevin McBride 2005.