Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir á Facebook í gær að hún hygðist kjósa Höllu Hrund sem næsta forseta Íslands.
Það væri ekki síst vegna þekkingar Höllu á auðlindum þjóðarinnar og áherslu á að þær verði nýttar í almannaþágu og vegna sýnar hennar í jafnréttismálum.
„Halla Hrund býr yfir þeim kostum sem ég vil að forseti Islands hafi til að bera, réttsýni. mannúð og mildi,“ skrifar Jóhanna.
Fylgst með Höllu í allmörg ár
Geir H. Haarde, kollegi Jóhönnu í ríkisstjórn Íslands frá 2007 til 2009 og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti einnig yfir því að hann hygðist kjósa Höllu Hrund í forsetakosningunum 1. júní næstkomandi.
„Ég hef fylgst með Höllu Hrund í allmörg ár allt frá því hún leitaði ráða hjá mér varðandi framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hún vakti strax athygli mína fyrir eldmóð og atorku,“ skrifaði Geir á Facebook-síðu sinni.
Hann segir Höllu velviljaða, eiga auðvelt með að tengjast öðrum og hafa meiri áhuga á viðfangsefnum sínum en sjálfri sér. „Ég tel að hún hafi það sem til þarf til að gegna hinu mikilvæga embætti forseta Íslands með glæsibrag. Þess vegna ætla ég að kjósa hana,“ skrifar Geir og hvetur aðra til að styðja við Höllu.
Ég hvet ykkur öll til að styðja Höllu Hrund í forsetakosningunum..