Fótbolti

Fékk rautt spjald fyrir brot á Sveindísi sem fór meidd af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar hér bikarmeistaratitlinum á dögunum.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar hér bikarmeistaratitlinum á dögunum. Getty/Ralf Ibing

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir fór meidd af velli eftir aðeins 22 mínútna leik í dag.

Sveindís var í byrjunarliði Wolfsburg á móti Essen í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Wolfsburg skoraði tvö mörk á fyrstu ellefu mínútum leiksins.

Sveindís skoraði ekki en á 21. mínútu var hún spörkuð niður af Sophiu Winkler, leikmanni Essen.

Winkler fékk beint rautt spjald fyrir brotið en Sveindís gat ekki haldið áfram.

Næst á dagskrá eru mikilvægir landsleikir og þessi meiðsli okkar besta framherja eru því áhyggjuefni.

Sveindís hefur verið afar óheppin með meiðsli að undanförnu og var nýkomin til baka eftir að hafa meiðst á öxl í landsleik.

Wolfsburg vann leikinn á endanum 6-0. Ewa Pajor skoraði þrennu í síðasta leik sínum fyrir félagið.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í meistaraliði Bayern München unnu 4-1 útisigur á Hoffenheim og íslenski landsliðsfyrirliðinn spilaði allan leikinn.

Selma Sól Magnúsdóttir vann Íslendingaslag á móti Ingibjörgu Sigurðardóttur þegar Nürnberg vann 2-1 sigur á Duisburg. Selma spilaði fyrstu 72 mínútur leiksins en Ingibjörg fór af velli á 77. mínútu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fór af velli í hálfleik þegar Bayer Leverkusen tapaði 3-2 á heimavelli á móti Werder Bremen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×