Fótbolti

Hélt upp á landsliðsvalið með marki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur skorað grimmt á tímabilinu.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur skorað grimmt á tímabilinu. getty/Nikola Krstic

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hélt upp á það að vera valin í íslenska A-landsliðið í fótbolta með því að skora í stórsigri Nordsjælland á Næstved, 2-10, í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar í dag.

Emilía er einn þriggja nýliða sem voru valdir í íslenska landsliðið fyrir leikina gegn Austurríki í undankeppni EM 2025. Hinir eru Katla Tryggvadóttir og Kristín Dís Árnadóttir.

Hin nítján ára Emilía á íslenskan föður en danska móður. Hún hefur leikið fyrir yngri landslið Danmerkur en hefur nú verið valin í íslenska A-landsliðið.

Emilía og stöllur hennar í Nordsjælland voru í góðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn Næstved í dag enda unnu þær þann fyrri, 0-7.

Nordsjælland var í álíka litlum vandræðum með Næstved í dag og vann annan stórsigur, 2-10. Emilía skoraði annað mark gestanna á 50. mínútu en hún jafnaði þá í 2-2.

Emilía er markahæst í dönsku úrvalsdeildinni með tíu mörk í sextán leikjum. Nordsjælland er með tveggja stiga forskot á toppi hennar.

Í bikarúrslitaleiknum mæta Emilía og stöllur hennar Bröndby sem Kristín Dís og Hafrún Rakel Halldórsdóttir leika með. Bröndby vann AGF í gær, 3-1, og einvígið, 4-3 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×