Ásdís Karen kom heimakonum í Lilleström yfir strax á tíundu mínútu, áður en gestirnir jöfnuðu metin níu mínútum síðar.
Katrine Winnem Jorgensen skoraði hins vegar annað mark Lilleström á 36. mínútu og sá til þess að liðið fór með 2-1 forystu inn í hálfleikshléið.
Það var svo Tonje Pedersen sem skoraði þriðja mark liðsins þegar um tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Gestirnir minnkuðu muninn stuttu fyrir leikslok, en þar við sat og niðurstaðan varð 3-2 sigur Lilleström.
Lilleström er nú með 15 stig í fjórða sæti norsku deildarinnar eftir átta leiki, þremur stigum meira en Stabæk sem situr í sjötta sæti og hefur leikið einum leik meira.