Fótbolti

Kristall hetjan en fagnaði ó­sæmi­lega og fékk rautt

Sindri Sverrisson skrifar
Daníel Leó Grétarsson, Atli Barkarson og Kristall Máni Ingason fögnuðu sæti í úrvalsdeild á dögunum og eru nú svo gott sem búnir að vinna 1. deildina.
Daníel Leó Grétarsson, Atli Barkarson og Kristall Máni Ingason fögnuðu sæti í úrvalsdeild á dögunum og eru nú svo gott sem búnir að vinna 1. deildina. @sonderjyskefodbold/Nicolai Berthelsen

Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark úr víti, rétt fyrir lok leiks, sem svo gott sem tryggði Sönderjyske titilinn í dönsku 1. deildinni í fótbolta í dag.

Kristall skoraði markið á 88. mínútu en ákvað að fagna því með því fyrir framan stuðningsmenn AaB sem fylgt höfðu liðinu í þennan útileik, í von um að geta fagnað sæti í úrvalsdeild.

Dómarinn gaf Kristal gult spjald fyrir þetta og í uppbótartíma fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt, fyrir tæklingu, og er því kominn í leikbann.

SönderjyskE hafði þegar tryggt sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni en með sigrinum í dag, 1-0 gegn AaB, er liðið jafnframt nánast endanlega búið að tryggja sér efsta sætið í B-deildinni, þó að enn séu þrír leikir eftir.

Hinn 17 ára Nóel Atli Arnórsson lék allan leikinn fyrir AaB en liðið þarf nú enn að bíða eftir að tryggja sér formlega farseðilinn upp. AaB er með 56 stig í 2. sæti og gott forskot á næstu lið. 

SönderjyskE er nú komið með 65 stig og markatala liðsins er 19 mörkum betri en hjá AaB, svo það þarf ansi mikið að ganga á til að SönderjyskE vinni ekki deildina.

Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn í vörn SönderjyskE í dag og hefur liðið haldið marki sínu hreinu í fjórum af síðustu sex leikjum sínum með Daníel í vörninni. Atli Barkarson hefur hins vegar misst af síðustu leikjum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×