Sport

Bráðnaði ekki í hitanum á Filipps­eyjum og náði í silfur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir stóð sig vel í hitanum og rakanum á Filippseyjum í dag.
Guðlaug Edda Hannesdóttir stóð sig vel í hitanum og rakanum á Filippseyjum í dag. @eddahannesd

Íslenska þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir varð í öðru sæti á þríþrautarmóti á Filippseyjum í dag og náði sér þar með í dýrmæt stig í baráttunni um laus sæti á Ólympíuleikunum í París seinna í sumar.

„Silfur í Philippines Asian Cup. Heitt, heitt, heitt og mikill raki sem kölluðu á spennandi keppnistaktík. Ferðalagið hefur verið mjög erfitt en svo ótrúlega gefandi,“ skrifaði Guðlaug Edda á samfélagsmiðilinn Instagram.

„Ég er svo stolt af sjálfri mér fyrir að vera sterk og gefast aldrei upp. Með þessu hef ég haldið Ólympíudraumnum mínum á lífi,“ skrifaði Guðlaug Edda.

Guðlaug Edda fylgdi því eftir gullinu sem hún vann í Nepal á dögunum með því að komast aftur á verðlaunapall. Tvö mót í röð og fullt af mikilvægum stigum í húsi.

Hún þakkar líka þjálfara sínum Sigurði Erni Ragnarssyni fyrir hjálpina en hann er með henni úti í þessari keppnisferð. Edda segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hún fái slíka aðstoð en hingað til hefur hún verið ein og óstudd þegar hún er að keppa erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×