Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún fer alltaf í hringi! Ég er til dæmis svo heppin að mamma mín á fullt af fötum sem hún notaði í denn og ég er mjög dugleg að vera í hennar fötum. Einnig þá hef ég fengið töluvert af fötum frá stjúpmömmu minni og ömmu minni sem mér þykir mjög vænt um og er dugleg að nota föt frá þeim.
Ég og Dóra stjúpmamma mín notum líka sömu skóstærð og ég er mjög þakklát fyrir það hversu dugleg hún er að gefa mér skó af sér. Alberto Fermani stígvélin og Strategia ökklaskórnir mínir eru þar í uppáhaldi.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég verð að segja mokkakápan hennar ömmu. Hún er svo klassísk. Hún var í henni í gamla daga og þetta var síðasta flíkin sem hún gaf mér áður en hún lést. Mér þykir virkilega vænt um hana.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Á venjulegum virkum degi þá er ég oftast í einhverju þægilegu. Sérð mig líklegast í ræktarfötunum eða bara buxum og peysum. Hins vegar elska ég að plana og eyða tíma í að velja föt fyrir sérstök tilefni og helgar. Þá get ég eytt miklum tíma í að velja outfit og þá hugsa ég líka út í hár, förðun og fylgihlutina til að poppa upp outfitið.
Til dæmis þá erum við átta skvísur að fara á tónlistarhátíð í sumar. Mikill tími af umræðunni hjá hópnum hefur farið í að velja outfit og þemu fyrir ferðina því okkur finnst svo gaman að pæla í heildarlúkkinu.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi segja svört leðurskvís sem elskar að poppa upp outfitin með rauðum varalit og töskum! Ég á um 20 töskur og elska að lífga upp á outfitið með áberandi töskum.
Svo á ég átta leðurjakka og fullt af pelsum og elska að fullkomna dressið með góðum jakka.
Annars er stíllinn minn alls konar og fer mjög eftir stað og stund og bara hvaða stuði ég er í hverju sinni. Sömuleiðis hendi ég aldrei fötum og er dugleg að finna gömul föt og nota aftur.
Ég fór til dæmis á Zöru Larsson tónleika um daginn og var þá í kjól sem ég keypti mér fyrir menntaskólaball þegar að ég var sextán ára!
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já ég myndi segja það! Ég er klárlega orðin duglegri að þora að vera í meira áberandi fötum.
Ég hef líka þorað að klæðast meira extra við sérstök tilefni, eins og til dæmis Eurovision, þemaafmæli, halloween eða hvað sem er þá fer ég alltaf ALL IN. Ég fer alla leið í glimmeri og demöntum og engu er til sparað og skreyti líka íbúðina mína í stíl.
Nýturðu þess að klæða þig upp?
Ég elska það! Mér finnst svo gaman að plana og pæla í outfitum og pæla í öllum minnstu smáatriðum. Við vinkonurnar erum líka reglulega að plana outfit saman sem er svo gaman. Í fyrra keypti ég mér íbúð sem er með fataherbergi. Það var algjör draumur og seldi mér íbúðina strax.
Mér finnst svo mikil synd að nota föt einungis nokkrum sinnum þannig ég er mjög dugleg að lána vinkonum mínum fötin mín. Ég veit ekki hversu oft við stelpurnar höfum hist og erum allar að velja okkur outfit úr fataherberginu mínu og skellum okkur svo saman á djammið. GMT (gera mig til) stundin með stelpunum er iconic!
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég fæ mikinn innblástur á Tiktok og er oft að horfa á vídeó af stelpum að púsla saman mismunandi fötum. Ég er einnig að horfa enn og aftur á Sex and the City þættina og Carrie Bradshaw er mér mikill innblástur og ég elska að fylgjast með fötunum í þáttunum.
Einnig þá fæ ég mikinn innblástur frá vinum mínum og þá sérstaklega Sindra Snæ og Þorbjörgu.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei ég get alls ekki sagt það. Ég var til dæmis alls ekki að fíla útvíðar buxur en svo smá saman byrjaði ég að elska það. Ég er því alltaf á þeim vagni að ekkert sé bannað.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Það fyrsta sem kom upp í hugann minn er útskriftarkjóllinn minn. Ég útskrifaðist með meistaragráðu núna í febrúar og þykir mjög vænt um útskriftarkjólinn.
Hann minnir mig á æðislega helgi með mínu besta fólki. Svo auðvitað var ég í tveimur mismunandi kjólum, einum fyrir athöfnina og öðrum kjól fyrir veisluna!
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ekki gleyma töskunum og fylgihlutunum og rauður varalitur getur gert svo mikið fyrir heildarlúkkið.