Fótbolti

Tuchel sár vegna um­mæla Hoeness

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel hættir hjá Bayern eftir tímabilið.
Thomas Tuchel hættir hjá Bayern eftir tímabilið. getty/Silas Schueller

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Bayern München, var langt frá því að vera sáttur með ummæli Uli Hoeness, heiðursforseta félagsins.

Hoeness er ekki mikill aðdáandi Tuchels og hefur verið ófeiminn við að gagnrýna hann í vetur. Nú síðast sagði Hoeness að Tuchel hefði hvorki viljann né getuna til að bæta leikmenn Bayern. Ummælin fóru illa í stjórann.

„Mér sárnaði mikið sem þjálfara. Ef það er eitthvað sem við í þjálfarateyminu höfum sannað síðustu fimmtán ár er það er alltaf pláss fyrir unga leikmenn á æfingum hjá okkur, og í leikjum ef þeir standa sig,“ sagði Tuchel.

„Við höfum sannað það. Ég botna lítið í þessu. Þetta er tilhæfulaust og svo langt frá raunveruleikanum að ég myndi ekki svara þessu ef þetta kæmi frá öðrum en Uli.“

Tuchel var einnig ósáttur við tímasetninguna á gagnrýninni en Bayern mætir Real Madrid í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn.

Tuchel lætur af störfum hjá Bayern eftir tímabilið. Ljóst er að Bayern verður ekki þýskur meistari en Leverkusen tryggði sér titilinn fyrir tveimur vikum.

Bayern vann 2-1 sigur á Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Harry Kane skoraði bæði mörk Bæjara sem eru í 2. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×