Fótbolti

„Versta á­­kvörðun í sögu Meistara­deildarinnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emma Hayes var langt því frá að vera sátt eftir leik Chelsea og Barcelona.
Emma Hayes var langt því frá að vera sátt eftir leik Chelsea og Barcelona. getty/Kieran Cleeves

Emma Hayes, knattspyrnustjóri Chelsea, sparaði ekki stóru orðin eftir að liðið féll úr leik fyrir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gær.

Aitana Bonmatí kom Barcelona yfir á 25. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Á 59. mínútu fékk Kadeisha Buchanan, leikmaður Chelsea, sitt annað gula spjald og þar með rautt og við það þyngdist róður Englandsmeistaranna verulega. 

Börsungar fengu svo vítaspyrnu á 75. mínútu sem Fridolina Rolfo skoraði úr. Spánarmeistararnir unnu því leikinn, 0-2, og einvígið, 2-1 samanlagt.

Hayes var afar ósátt við frammistöðu dómarans Iuliana Demetrescu í leiknum og þá sérstaklega með ákvörðun hennar að reka Buchanan af velli.

„Mér fannst þetta ekki vera brot, hvað þá gult spjald,“ sagði Hayes. „Þetta var versta ákvörðun í sögu Meistaradeildarinnar.“

VAR er notað í Meistaradeildinni en einungis er hægt að nota það til að skoða rauð spjöld, ekki gul. Því var seinni áminningin á Buchanan ekki skoðuð.

„Ég stóð þarna og horfði á fjórða dómarann og sagði að þetta hlyti að vera skoðað en hún sagði að það væri ekki hægt,“ sagði Hayes.

„Það blóðugasta er að við töpuðum þessu ekki. Það er ekkert sem þú getur gert þegar það er svona skelfileg ákvörðun og þetta var nógu erfitt fyrir. Barcelona er frábært lið. En það er sárt fyrir leikmennina þegar þetta er tekið úr þeirra höndum.“

Hayes yfirgefur Chelsea eftir tímabilið til að taka við bandaríska landsliðinu. Hún hefur unnið allt sem hægt er að vinna sem stjóri Chelsea, nema Meistaradeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×