Marta ræddi framtíð sína í fótboltanum í viðtali við CNN. Hún gæti keppt á sínum sjöttu Ólympíuleikum í París í sumar.
„Ef ég kemst á Ólympíuleikana þá mun ég njóta hverrar stundar þar. Hvort sem ég kemst í liðið eða ekki þá verður þetta síðasta árið mitt með landsliðinu. Það verður ekkert meira af landsliðskonunni Mörtu árið 2025,“ sagði hin 38 ára gamla Marta.
„Ég er mjög róleg yfir þessu af því að ég sé með eigin augum allan þann uppgang sem er í gangi með ungu knattspyrnukonurnar okkar. Ég er því bjartsýn á framtíð landsliðsins,“ sagði Marta.
Marta á tvö Ólympíusilfur frá leiknum í Aþenu 2004 og í Peking 2008. Í báðum tilfellum tapaði brasilíska landsliðið fyrir Bandaríkjunum í úrslitaleik. Hún á einnig eitt silfur frá heimsmeistaramóti eftir tap á móti Þýskalandi í úrslitaleik á HM 2007.
Alls hefur Marta skorað 116 mörk í 175 landsleikjum síðan hún spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2002. Enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir brasilísku fótboltalandsliðin en Neymar er markahæstur hjá körlunum með 79 mörk.
Marta er og verður áfram leikmaður með Orlando Pride í bandarísku deildinni þar sem hún hefur spilað frá árinu 2017.