Upp­gjörið: Grinda­­vík - Tinda­­stóll 91-89 | Ís­lands­­meisturunum sópað úr leik í Smáranum

Smári Jökull Jónsson skrifar
DeAndre Kane mætti aftur eftir leikbann.
DeAndre Kane mætti aftur eftir leikbann. Vísir/Vilhelm

Grindvíkingar urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Subway-deildar karla. Þetta varð ljóst eftir að liðið vann Tindastól í þriðja sinn í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum.

Eftir fyrsta leikhlutann í kvöld benti reyndar ýmsilegt til þess að við fengjum þriðja ójafna leikinn í einvíginu. Nema bara á hinn veginn. Leikmenn Tindastóls byrjuðu leikinn af rosalegum krafti og komust mest 19 stigum yfir í fyrsta leikhlutanum. Svo gott sem öll skot Stólanna fóru niður á meðan Grindvíkingar voru í brasi.

DeAndre Kane lokaði fyrsta leikhlutanum hins vegar með frábærri þriggja stiga körfu fyrir Grindavík og það kveikti í heimaliðinu. Staðan þá 36-23 en Grindvíkingar voru fljótir að koma til baka. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og þegar Adomas Drungilas fékk óíþróttamannslega villu undir lok annars leikhluta náðu Grindvíkingar að skora sjö stig á skömmum tíma og minnka muninn í eitt stig.

Síðari hálfleikur var gríðarlega jafn. Stólarnir voru nær alltaf skrefinu á undan og héldu áfram að hitta vel. Í þriðja leikhluta gerði Drungilas sig sekan um mikið dómgreindarleysi. Hann lét dómarana heyra það þegar hann fékk ekki villu dæmda á Grindvíkinga og fékk tæknivillu. Þar sem hann hafði áður fengið óíþróttamannslega villu þýddi þetta að hann hafði lokið leik.

Leikurinn var þó áfram í járnum. Í stöðunni 86-83 fyrir Tindastól undir lok fjórða leikhluta skoraði Grindavík sex stig í röð og komst þremur stigum yfir. Jacob Calloway jafnaði þegar 16,6 sekúndur voru eftir með frábæru þriggja stiga skoti en Dedrick Basile var hetja Grindvíkinga þegar allt var undir. Hann keyrði á körfuna og skoraði stigin tvö sem heimamenn þurftu og tryggði Grindavík sigurinn.

Lokatölur 91-89 og Grindavík komið í undanúrslit Subway-deildarinnar í fyrsta sinn síðan 2017. Tindastóll er hins vegar er úr leik og verða að sætta sig við að eiga eina lélegustu titilvörn síðari ára, jafnvel sögunnar.

Atvik leiksins

Stóru atvikin í þessum leik voru nokkur. Undir lok fyrri hálfleiks var Adomas Drungilas heppinn að fá að halda leik áfram eftir að hafa gefið Daniel Mortensen olnbogaskot. Hann lét hins vegar reka sig af velli í þriðja leikhlutanum og var augljóst hversu svekktir liðsfélagar hans voru út í hann. Barnaleg hegðun hjá reynslumiklum manni.

Karfa Jacob Calloway þegar hann jafnaði í 89-89 var rosaleg en yfirvegun Dedrick Basile þegar hann skoraði sigurkörfuna var enn betri. Alvöru „clutch“ karfa eftir að einhverjir hefðu talað um að Tindastóll væri hans kryptónít. 

Stjörnur og skúrkar

Áðurnefndur Basile er stjarna leiksins. Hann átti þátt í flestum ef ekki öllum körfum Grindavíkur undir lokin og steig upp þegar á þurfti að halda. DeAndre Kane gerði það líka. Hann var frábær í síðari hálfleiknum eftir að hafa verið ögn vanstilltur í þeim fyrri.

Skúrkarnir eru tveir. Annars vegar Adomas Drungilas af áðurnefndum ástæðum. Hins vegar Keyshawn Woods sem skoraði aðeins fimm stig í leiknum og sat á bekknum nær allan fjórða leikhlutann.

Dómararnir

Grindvíkingar létu dómarana fara mikið í taugarnar á sér í fyrri hálfleik. Ég held að það hafi haft meira að gera með spennustig Grindvíkinga en frammistöðu dómaranna þó heimamenn hafi eitthvað haft til síns máls eins og gengur og gerist.

Ég væri hins vegar til í að heyra rökfærsluna fyrir því að Adomas Drungilas hafi ekki fengið brottvikningu fyrir olnbogaskotið á Mortensen. Ég er ekki það fróður í dómarafræðum að ég geti fullyrt hvað sé rétt. Það fyrsta sem ég hugsaði þó þegar ég skoðaði atvikið í sjónvarpi var að Drungilas myndi fjúka útaf.

Stemmning og umgjörð

Stemmningin í Smáranum í kvöld var frábær. Þó stuðningsmenn Tindastóls hafi verið færri en á fyrsta leiknum þá var virkilega góð stemmning í stúkunni hjá Skagfirðingum í kvöld. Stuðningsmenn Grindavíkur létu líka vel í sér heyra og undir lokin var sungist á sitt á hvað í stúkunni.

Umgjörðin hjá Grindvíkingum var til fyrirmyndar. Búið að kveikja í grillinu löngu fyrir leik, fólk mætt tímanlega og einfaldlega allt til fyrirmyndar.

Viðtöl

DeAndre Kane var kampakátur þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn í kvöld. Hann sagði að Grindvíkingar hefðu ekki viljað fara aftur norður á Sauðárkrók og hrósaði stuðningsmönnum Grindavíkur í hástert.

„Við vitum að Tindastóll er frábært lið. Þeir er engin tilviljun að þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Við vissum að þeir myndu ekki bara koma hingað og leggjast í jörðina. Þeir mættu og börðust virkilega vel og sérstaklega í fyrsta leikhlutanum. Þeir gáfu allt sem þeir áttu og settu niður fullt af þristum,“ sagði Kane en Tindastóll leiddi 36-23 eftir ótrúlegan fyrsta leikhluta af hálfu gestanna.

„Við þurftum bara að halda okkur við skipulagið. Við vissum að ef við myndum spila okkar leik, færa boltann vel og klára í sókninni og spila góðan varnarleik - þá myndum við gefa sjálfum okkur tækifæri til að vinna leikinn. Við gerðum það.“

DeAndre Kane gæti verið á leið í bann.Vísir/Vilhelm

Hann sagðist bara mikla virðingu fyrir Tindastólsliðinu.

„Svona jafnir leikir eru erfiðistu leikirnir sem maður spilar. Þeir höfðu engu að tapa en við vildum ekki fara aftur norður. Ef þeir hefðu unnið þá hefði stemmningin færst yfir til þeirra og einvígið orðið erfitt. Við vildum klára þetta hvernig sem við myndum fara að því, hvort það yrði eitt eða tvö stig. Það þarf að hrósa þeim. Þeir börðust og þetta er gott lið og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Við sjáum þá á næsta ári.“

Kane á glæsilegan feril að baki í körfuboltaheiminum. Hann hefur meðal annars spilað í Ísrael og unnið meistaratitil þar í landi fyrir framan 25.000 áhorfendur þar sem æsingurinn er mikill. Hann sagði stuðningsmenn Grindavíkur standast þann samanburð.

„Þeir eru ótrúlegir. Það skiptir engu hversu margir stuðningsmenn eru, hvort það eru 20.000 eða 4.000. Það sem skiptir máli er að fólkið standi með þér hvort sem þú vinnur eða tapar og það gera þeir. Þeir stóðu með okkur þegar við töpuðum fjórum í röð og svo líka þegar við unnum ellefu í röð. Stuðningsmennirnir okkar eru þeir bestu og þeir hjálpa okkur að ná í sigra,“ sagði Kane að lokum og bætti við að honum væri alveg sama hverjir andstæðingar Grindavíkur yrðu í undanúrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira