Fótbolti

Xabi Alonso tók metið af Conte

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso með Victor Boniface, leikmanni Leverkusen, eftir leikinn á móti West Ham í London í gærkvöldi.
Xabi Alonso með Victor Boniface, leikmanni Leverkusen, eftir leikinn á móti West Ham í London í gærkvöldi. AP/Kin Cheung

Bayer Leverkusen tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær og um leið nýtt glæsilegt met.

Leverkusen hefur nú leikið 44 leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa. Þýska liðið hefur ekki tapað á öllu tímabilinu.

Leverkusen vann 2-0 sigur í fyrri leiknum á móti West Ham í átta liða úrslitunum og mátti því tapa með einu marki í gær.

West Ham komst líka 1-0 yfir í leiknum en Jeremie Frimpong jafnaði metin fyrir þýska liðið mínútu fyrir leikslok. Ekki í fyrsta sinn sem lærisveinar Xabi Alonso koma í veg fyrir ósigur á leiktíðinni með dramatískum mörkum í lokin.

Með þessu jafntefli og 44 leikjum taplausum leikjum í röð var ljóst að metið er fallið í fimm stærstu deildum Evrópu.

Áður hafði lið mest leikið 43 leiki í röð án þess að tapa í þessum fimm toppdeildum sem eru á Englandi, á Spáni, í Þýskalandi, í Frakklandi og á Ítalíu. Það var lið Juventus undir stjórn Antonio Conte frá maí 2011 til maí 2012.

Þetta þýðir auðvitað að Leverkusen á enn möguleika á mörgum titlum á þessari leitkíð. Leverkusen tryggði sér þýska meistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins um síðustu helgi.

Auk þess að vera í undanúrslitum Evrópudeildarinnar, þar sem liðið mætir Roma frá Ítalíu, þá er liðið einnig komið í úrslitaleik þýska bikarsins þar sem liðið mætir Kaiserslautern.

Bayer Leverkusen er með 25 sigra og 4 jafntefli í 29 leikjum í þýsku deildinni, liðið er með fimm sigra í þýska bikarnum og er með átta sigra og tvö jafntefli í Evrópudeildinni.

Þetta gerir því 38 sigrar og sex jafntefli í 44 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×