Upp­gjörið: Grinda­vík - Tinda­stóll 111-88 | Stólarnir teknir í kennslu­stund í Smáranum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Barist í Smáranum.
Barist í Smáranum. Vísir/Vilhelm

Grindavík vann stórsigur á Íslandsmeisturum Tindastóls þegar liðin mættust í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar í kvöld. Lokatölur 111-88 þar sem lið Tindastóls var tekið í kennslustund.

Leikurinn var jafn í byrjun en Grindavík þó skrefinu á undan. Þeir leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhlutann þar sem varnarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska.

Jacob Calloway átti flotta innkomu hjá Stólunum og hélt þeim inni í leiknum í fyrri hálfleik.Vísir/Vilhelm

Það lagaðist þó hjá Grindvíkingum í öðrum leikhluta og sóknarleikurinn gekk vel. Suðurnesjaliðið var að ná að búa til opin þriggja stiga skot í sókninni en það var þó ekki fyrr en undir lok leikhlutans sem þeir náðu áhlaupinu. Varnarleikur Stólanna var í tómu tjóni og skotin ekki að detta heldur.

Staðan í hálfleik var 56-41 og Svavar Birgisson þjálfari Tindastóls eflaust farið vel yfir varnarleik sinna manna í hálfleik.

DeAndre Kane var fyrirferðamikill hjá Grindavík eins og svo oft áður.Vísir/Vilhelm

Það skilaði þó engu. Grindvíkingar byrjuðu þriðja leikhlutann á 10-0 áhlaupi og svo gott sem gengu frá leiknum. Lið Tindastóls brotnaði á meðan Grindvíkingar léku við hvurn sinn fingur. Munurinn fór mest í 28 stig og úrslitin svo gott sem ráðin áður en lokafjórðungurinn hófst.

Julio De Asisse treður með tilþrifum.Vísir/Vilhelm

Hann var líka fremur rólegur. Grindavík byrjaði á því að skora fyrstu fimm stigin og endanlega rota Íslandsmeistarana. Lokamínúturnar voru lítið spennandi og bæði lið hvíldu lykilmenn. Lokatölur 111-88 og Grindavík komið í 1-0 í einvíginu.

Atvik leiksins

Það er erfitt að velja eitt atvik úr heilum körfuboltaleik. Grindvíkingar fengu samt klárlega blóð á tennurnar þegar Valur Orri Valsson skoraði síðustu körfu fyrsta leikhluta. 

Valur Orri Valsson kom af miklum krafti inn af bekknum hjá Grindavík.Vísir/Vilhelm

Hann tók þá innkast undir körfunni með 1,7 sekúndu eftir á klukkunni. Valur Orri kastaði boltanum í bakið á leikmanni Tindstóls sem var ekki að fylgjast með, tók hann svo sjálfur og skoraði undir körfunni.

Þessi karfa kveikti heldur betur í Val Orra sem og Grindavíkurliðinu öllu.

Stjörnur og skúrkar

Dedrick Basile skein skærast í Grindavíkurliðinu en stjörnurnar voru margar í þeirra liði í kvöld. Basile skoraði 28 stig, gaf 8 stoðsendingar og spilaði nánast óaðfinnanlega. Valur Orri Valsson kom frábærlega inn af bekknum og byrjaði áhlaup Grindavíkur í öðrum leikhluta og DeAndre Kane spilaði vel eins og venjulega.

Dedrick Basile var frábær í liði Grindavíkur.Vísir/Vilhelm

Að sama skapi voru skúrkarnir margir í liði Tindastóls. Alltof margir lykilmenn voru langt frá sínu besta og til að mynda skoruðu Sigtryggur Arnar Björnsson, Þórir Þorbjarnarson og Keyshawn Woods allir minna en tíu stig í leiknum.

Dómararnir

Heilt yfir dæmdu þeir Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson og Birgir Hjörvarsson leikinn ágætlega. Hins vegar verður að fara að ræða regluna sem virðist nýlega hafa verið tekin fyrir á dómarafundi og á hana lögð sérstök áhersla. 

Kristinn Óskarsson var einn af dómurum leiksins í kvöld.Vísir/Vilhelm

Hún snýr að tæknivillum á leikmenn sem hanga í hringnum eftir troðslu. Villur sem enginn nennir og gera ekkert nema að letja leikmenn í því að sýna áhorfendum alvöru tilþrif. 

Hættið þessu!

Stemmningin og umgjörð

Það var algjörlega stórkostleg stemmning í Smáranum í kvöld. Stúkurnar voru orðnar þéttsetnar löngu fyrir leik enda var búið að selja yfir 1000 miða í forsölu. Það var líkt og um væri að ræða leik í lokaúrslitum en ekki 8-liða úrslitum.

Umgjörðin var góð og Smárinn er frábært íþróttahús fyrir leik af þessari stærðargráðu, nóg pláss fyrir alla og stúkur báðu megin við völlinn. 

Stuðningsmenn Grindavíkur voru kátir í kvöld.Vísir/Vilhelm

Stuðningsmenn beggja liða voru frábærir. Vissulega heyrðist meira í Grindvíkingum eftir því sem munurinn inni á vellinum jókst en Grettismenn fá hrós fyrir að halda áfram á pöllunum þrátt fyrir að tap væri staðreynd löngu áður en leikurinn var búinn.

Viðtöl

Dedrick Basile átti frábæran leik fyrir Grindavík gegn Tindastóli í kvöld og var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Hann var þó kominn niður á jörðina þegar hann spjallaði við blaðamann eftir leik.

„Þetta var frábær sigur en þetta er bara einn leikur. Við þurfum að reyna að halda þessu áfram,“ sagði Basile en hann er ekki að spila í fyrsta sinn í úrslitakeppninni hér á landi enda leikið bæði með Njarðvík og Þór Akureyri áður.

Dedrick Basile kominn framhjá tveimur varnarmönnum Tindastóls.Vísir/Vilhelm

„Þetta verður andrúmsloft eins og í lokaúrslitum á mánudag. Þeir eru alltaf með stuðningsmennina með sér og sérstaklega á heimavelli. Við þurfum að standa saman og ef við spilum eins og við gerðum í kvöld þá getum við náð í sigur.“

Hann sagði umræðuna um einvígið fyrir leikinn ekki hafa haft áhrif á liðið en ýmsir voru á því að Grindvíkingar hefðu verið óheppnir að mæta Íslandsmeisturunum í 8-liða úrslitum eftir að hafa náð 2. sæti í deildakeppninni.

Basile við það að skora í leiknum í kvöld.Vísir/Vilhelm

„Við viljum mæta risunum fyrst og það gerir okkur betri í úrslitakeppninni. Með þetta andrúmsloft í fyrstu umferðinni, það gerir okkur tilbúnari. Fólkið stúkunni er frábært og sérstaklega hjá þessum tveimur liðum. Það var frábær stemmning hér í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira