Fótbolti

Magnað mark Vig­dísar dugði ekki í lokaleiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði glæsilegt mark í dag, eftir að hafa farið framhjá þremur varnarmönnum Austurríkis.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði glæsilegt mark í dag, eftir að hafa farið framhjá þremur varnarmönnum Austurríkis. vísir/Hulda Margrét

Íslenska U19-landslið kvenna í fótbolta varð að sætta sig við 3-2 tap gegn Austurríki í Króatíu í dag, í lokaleik sínum í undankeppni Evrópumótsins.

Ísland endaði því í 3. sæti síns riðils, á þessu seinna stigi undankeppninnar, en fyrir leik var ljóst að Austurríki og Ísland gætu ekki komist upp fyrir efsta liðið, Írland, sem fer á EM. Heimakonur í Króatíu enduðu neðstar án stiga.

Austurríki komst tvívegis yfir í fyrri hálfleiknum í dag en í bæði skiptin tókst Íslandi að jafna metin. Fyrra mark íslenska liðsins kom eftir sérstaklega glæsilegt einstaklingsframtak Blikans Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur, sem fór framhjá þremur varnarmönnum áður en hún skoraði á 33. mínútu.

Austurríki komst aftur yfir eftir hornspyrnu rétt fyrir hálfleik, en þá var enn tími fyrir Ísland til að jafna metin og það gerði fyrirliðinn Bergdís Sveinsdóttir með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks, eftir góða pressu íslenska liðsins.

Austurríki tryggði sér hins vegar sigur því lokamarkið kom frá Almedina Sisic á 54. mínútu.

A-landslið kvenna verður svo á ferðinni í Þýskalandi síðar í dag, eða klukkan 16:10, og spilar þar við heimakonur í öðrum leik sínum í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×