Einkum hafa þessi útlát verið í tíð Bjarna Benediktssonar sem gegndi embætti fjármálaráðherra frá 2013-2023 með stuttu hléi sem forsætisráðherra í skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartri framtíð og Viðreisn. Bjarni sagði af sér sem fjármálaráðherra í október og situr nú sem utanríkisráðherra.
Útlát ráðuneytisins vegna þjóðlendumála
Ráðuneytið hefur á síðustu árum keypt sérfræðiþjónustu af Juris slf. vegna þjóðlendumála. Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hafa gilt frá árinu 1998 og hefur á þeim tíma verið unnið að því að leysa endanlega úr óvissu um eignarhald á hálendissvæðum, en lögin voru sett í þeim tilgangi.
Þetta kemur fram í svari frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurn Vísis. Þar segir jafnframt að í lögum sé mælt fyrir um að óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, hafi meðal annars það hlutverk að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
Þetta þekkjum við úr fréttum nýverið en krafa var gerð á eyjar þær sem mynda Vestmannaeyjar við mikla furðu og óánægju heimamanna. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir núverandi fjármálaráðherra hefur gert tilraun til að bera klæði á vopnin.
Reglulegar greiðslur til Júrúis
Svo enn sé vitnað í svör sem bárust segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með það hlutverk að leggja fram kröfulýsingu ríkisins fyrir hvert þjóðlendusvæði.
„Þessari þjónustu hefur verið útvistað og er í gildi samningur ráðuneytisins við Juris.“
Frá árinu 2014 voru greiðslur ráðuneytisins til Juris vegna þjóðlendumála eftirfarandi samtals 354 milljónir króna. Tekið er fram að í svörunum að þar sem talað er um 2024 þá er um að ræða fyrstu þrjá mánuði ársins.
Greiðslur til Júrís vegna þjóðlendumála:
- 2014: 35.024.356 krónur
- 2015: 31:142.997 krónur
- 2016: 34.922.632 krónur
- 2017: 27.929.647 krónur
- 2018: 31.894.252 krónur
- 2019: 28.926.050 krónur
- 2020: 28.036.603 krónur
- 2021: 28.134.763 krónur
- 2022: 53.766.020 krónur
- 2024: 34.361.416 krónur
Auk þessa hefur ráðuneytið átt í viðskiptum við Juris vegna ýmissar sérfræðiþjónustu sem ekki snýr að þjóðlendumálum. Greiðslur ráðuneytisins vegna lögfræðilegrar ráðgjafar frá árinu 2014 voru eftirfarandi:
Greiðslur vegna lögfræðiráðgjafar:
- 2014: 14.501.871 krónur
- 2015: 1.001.228 krónur
- 2016: 687.188 krónur
- 2017: 879.833 krónur
- 2018: 185.950 krónur
- 2019: 47.500 krónur
- 2022: 5.884.004 krónur
- 2024: 2.974.271 krónur