Finna mátti fólk á öllum aldri en heyra mátti að eldra fólkið var öllu spenntari fyrir því að gæða sér á kræsingunum í kvöld. Sumar fjölskyldur mæta árlega í Hvalfjörðinn um páskana til að tína krækling.
Kristín Einarsdóttir tilheyrir einni slíkri fjölskyldu.
„Við erum að tína krækling og það höfum við gert hér undanfarin 42 ár,“ segir Kristín sem er ættuð frá Vestfjörðum.
„Þegar við fluttum til Reykjavíkur komum við alltaf hingað á föstudaginn langa, tínum saman krækling og borðum nesti.“
Kristín segir hópinn telja um fimmtíu manns og sé alltaf að stækka. Yngri kynslóðin sé síður spennt en sú eldri.
„En þau venja sig á þetta krakkarnir. Upp úr fermingu er þetta komið.“
Og það gekk vel að tína í dag nærri botni Hvalfjarðar, nokkra kílómetra suður af Glymi.
„Við þurftum að fara aðeins út í flæðarmálið en þetta gekk vel.“

Svo er kræklingurinn eldaður en þar leika nafnarnir hvítlaukur og hvítvín lykilhlutverk.
„Þetta er skemmtileg hefð, páskahefð.“
Önnur fjölskylda sem varð á vegi blaðamanns hefur tínt krækling um páskana undanfarin þrjátíu ár.
Sú almenna regla gildir varðandi kræklingatínslu í Hvalfirði að mælt er gegn henni í þeim mánuðum sem ekki innihalda bókstafinn R, þ.e. maí til ágúst. Frá september til apríl má tína kræklinga nema tilkynningar berist frá Matvælastofnun um annað.