Fótbolti

Svona verður EM hjá Ís­landi vinnist leikurinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti sumarið 2016 og draumur um annað EM gæti orðið að veruleika í kvöld.
Það var gaman hjá íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti sumarið 2016 og draumur um annað EM gæti orðið að veruleika í kvöld. EPA/GEORGI LICOVSKI

Íslenskir aðdáendur geta byrjað strax að plana ferð til Þýskalands og að finna gistingu í München, Düsseldorf og Stuttgart vinni strákarnir okkar Úkraínu í kvöld.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er einum sigri frá sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins í sumar. Það óvenjulega við það er að strákarnir okkar vita nákvæmlega hvað bíður þeirra vinnist leikurinn við Úkraínu í kvöld.

Það er nefnilega búið að draga í riðla og stilla öllu Evrópumótinu upp enda aðeins nokkrir mánuðir í fyrsta leik.

Það lið sem vinnur leik Íslands og Úkraínu í kvöld lendir í riðli með Belgíu, Slóvakíu og Rúmeníu.

Fyrsti leikur þess liðs fer fram á sjálfan Þjóðhátíðardaginn. Leikurinn er á móti Rúmeníu 17. júní og verður spilaður á sjálfum Allianz Arena, heimavelli Bayern München.

Næsti leikur er fjórum dögum seinna, 21. júní, á móti Slóvakíu en sá leikur er spilaður á Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf. Sá leikvangur hýsti einmitt leiki í úrslitakeppni EM í handbolta í janúar.

Lokaleikur liðsins í riðlinum er síðan á móti Belgíu á MHPArena í Stuttgart 26. júní. Liðið fær því einn dag auka til að jafna sig á milli leikja. Við Íslendingar þekkjum þennan leikvang kannski mest sem Neckarstadion en þar réði Ásgeir Sigurvinsson ríkjum á níunda áratugnum og vann þýska meistaratitilinn vorið 1984.

Tvö efstu liðin í riðlinum vita hvar þau spila í sextán liða úrslitunum en svo gæti líka farið að liðið í þriðja sæti fari áfram. Það kemur ekki ljós fyrr en allir leikir hafa spilast. Sigurvegari riðilsins spilar á Allianz Arena í München en liðið í öðru sæti á leik í Düsseldorf.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×