Um­fjöllun, við­töl og myndir: Kefla­vík - Þór Ak. 89-67 | Kefla­vík bikar­meistari eftir stór­sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Keflvíkingar eru bikarmeistarar kvenna í körfubolta.
Keflvíkingar eru bikarmeistarar kvenna í körfubolta. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík varð í kvöld bikarmeistari kvenna í körfubolta er liðið vann 22 stiga stórsigur gegn Þór Ak. í úrslitum í Laugardalshöll, 89-67.

Það var nokkuð ljóst að bæði lið mættu vel gíruð til leiks og mikill hraði og ákefð einkenndu upphafsmínúturnar. Liðin kepptust við að skjóta fyrir utan þriggja stiga línuna og fyrst um sinn virtust öll skotin rata rétta leið.

Vísir/Hulda Margrét

Um miðjan fyrsta leikhluta náðu Þórsarar þriggja stiga forskoti þegar Lore Devos setti niður þrist og kom Þór í 13-10. Þá vöknuðu Keflvíkingar hins vegar heldur betur til lífsins og skelltu í lás. Keflavíkurliðið skoraði síðustu 16 stig leikhlutans og leiddi því 26-13 að honum loknum.

Vísir/Hulda Margrét

Þórsarar fundu taktinn sóknarlega á ný í öðrum leikhluta eftir að Heiða Hlín Björnsdóttir setti niður þrist í fyrstu sókn liðsins. Liðinu tókst hins vegar alls ekki að finna leiðir til að stöðva sóknarleik Keflvíkinga og því gekk lítið sem ekkert að saxa á forskot Keflvíkinga.

Þá hjálpaði það Keflavíkurliðinu einnig að þær tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og gátu því nánast spilað hverja sókn þar til þær skoruðu.

Vísir/Hulda Margrét

Þórsliðið fann þó einnig yfirleitt lausnir í sínum sóknarleik og því hélst munurinn á liðunum að mestu sá sami út leikhlutann. Þórsarar skoruðu síðustu sex stig hálfleiksins og staðan var 46-34, Keflavík í vil, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Vísir/Hulda Margrét

Í seinni hálfleik var hins vegar ekki hægt að tala um jafnan og spennandi leik og Keflvíkingar fóru langleiðina með að klára titilinn strax í þriðja leikhluta. Keflvíska vörnin hélt Þórsurum í aðeins níu stigum, en sjálfar skoruðu Keflavíkurstúlkur 23 stig og staðan var því 69-43 fyrir lokaleikhlutann.

Vísir/Hulda Margrét

Þórsarar þurftu því á kraftaverki að halda á lokasprettinum, en kraftaverkið kom aldrei. Keflavíkurliðið hafði skapað sér meira en nægt andrými og vann að lokum öruggan 22 stiga sigur, 89-67. Bikarmeistaratitillinn var þar með í höfn og topplið Subway-deildarinnar getur nú farið að einbeita sér að þeim stóra.

Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Keflavík?

Þrátt fyrir góða byrjun Þórs í leiknum voru Keflvíkingar einfaldlega betra liðið í kvöld. Keflavíkurliðið var yfir í nánast öllum tölfræðiþáttum leiksins og eftir góðan sprett í 1. leikhluta hafði liðið yfirhöndina. Keflvíkingar tóku svo algjörlega völdin í 3. leikhluta og sigur þeirra var í raun aldrei í hættu eftir það.

Vísir/Hulda Margrét

Hverjar stóðu upp úr?

Keflavíkurliðið í heild sinni spilaði virkilega vel og er erfitt að segja að einhver ein hafi staðið upp úr í kvöld. Daniela Wallen, Elisa Pinzan og Birna Benónýsdóttir voru allar jafnstigahæstar með 15 stig hver, en Wallen tók einnig 12 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Í liði Þórs var Lore Devos atkvæðamest með 20 stig.

Hvað gekk illa?

Eftir að Keflavíkurliðinu tókst að finna taktinn almennilega gekk Þórsurum illa að brjóta vörn þeirra á bak aftur. Þórsliðið skoraði aðeins fimm stig fyrstu níu mínútur þriðja leikhluta og eftir að hafa hangið lengi í Keflvíkingum misstu þær Keflavíkurliðið algjörlega fram úr sér á þeim tímapunkti.

Hvað gerist næst?

Liðin halda nú áfram á sinni braut í Subway-deild kvenna þar sem Keflvíkingar tróna á toppnum og mæta Grindavík næstkomandi miðvikudag klukkan 20:15 í sannkölluðum toppslag. Þórsarar fá hins vegar styttra frí og heimsækja Fjölni á þriðjudaginn klukkan 19:15.

Daníel: Ætluðum að spila svolítið fast og vera pínu skíthælar

Daníel var stoltur af sínu liðið þrátt fyrir tapið.Vísir/Hulda Margrét

„Keflavíkurliðið er bara troðfullt af hæfileikum,“ sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, í leikslok.

„Það er bara erfitt að mæta þeim og við áttum bara lítinn séns í þessum leik, því miður. Ekki í þetta skipti allavega.“

Hann segir að leikskipulag liðsins hafi ferið snemma út um gluggann eftir að Keflvíkingar byggðu upp gott forskot strax í lok fyrsta leikhluta.

„Leikplanið var kannski aðeins of fljótt að fara út um gluggann. Við ætluðum að spila svolítið fast og vera pínu skíthælar og reyna að koma þeim úr jafnvægi. Það gekk kannski fyrstu þrjár til fjórar mínúturnar en eftir það var þetta bara algjörlega í þeirra höndum.“

Þá segir hann að leikurinn hafi algjörlega farið frá sínu liði í upphafi seinni hálfleiks.

„Við vorum að tapa boltanum klaufalega og þar af leiðandi að leyfa þeim að spila á opnum velli sem er nákvæmlega það sem þær vilja og hafa gert síðan þær voru litlar. Þá var þetta alveg farið.“

Þrátt fyrir tapið segist Daníel þó vera gríðarlega stoltur af sínu liði, sem og fólkinu sem gerði sér ferð suður til að styðja við bakið á stelpunum.

„Ég er mjög stoltur. Og ég er þvílíkt þakklátur fyrir alla stuðningsmennina okkar sem gerðu sér ferð suður. Þetta er ekki stutt ferðalag fyrir 300 manns eða eitthvað svoleiðis. Það er bara leiðinlegt að geta ekki komið með dolluna heim.“

Sverrir: Gerir þetta mikið, mikið stærra

Sverrir Þór Sverrisson fer yfir málin með sínum stelpum í leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Þetta er náttúrulega baráttulið og það eru karakterar í þessu Þórsliði sem gefast aldrei upp,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur eftir sigur kvöldsins.

„Við vorum í ágætismálum í hálfleik, en vissum að við þyrftum að byrja af krafti í seinni því það var ekkert það mikill munur. En svo varð þetta bara jafnt og þétt nokkuð gott hjá okkur og enda á tiltölulega þægilegum sigri í restina. Þannig að ég er mjög ánægður með þetta.“

Hann segir tilfinninguna að vinna bikarmeistaratitilinn fyrir framan troðfulla Keflavíkurstúku í Laugardalshöll þó ólýsanlega.

„Þetta er rosalegt. Sérstaklega af því að það er orðið svo langt síðan að Keflavík hefur unnið tvöfalt. Ég varð bikarmeistari með Keflavík kvenna 2017 og 2018, en þá vorum við ekki með karlaliðið líka. Þetta gerir þetta svo mikið, mikið stærra,“ sagði Sverrir, en á þeim tímapunkti mættu leikmenn Keflavíkur og létu vatnsgusurnar dynja á þjálfaranum sínum.

Sverrir tók því vissulega vel, en þakkaði um leið pent fyrir viðtalið og fór að taka þátt í fagnaðarlátunum.


Tengdar fréttir

„Héldum bara áfram að berja á þeim“

Elisa Pinzan, leikmaður Keflavíkur, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í körfubolta með stórsigri gegn Þór Ak. í kvöld. Hún segir það þó ekki skipta máli hversu stór sigurinn er.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira