Lögreglu barst símhringing klukkan eitt að næturlagi vegna bíls sem keyrt var háskalega í miðbæ Bondeno, þrettán þúsund manna byggð nærri Ferrara.
Lögregluþjónum, sem svöruðu kallinu, brá í brún þegar þeir stöðvuðu ökumanninn og fundu þar háaldraða konuna í bílstjórasætinu. Giuseppina Molinari, betur þekkt undir nafninu Giose, fæddist árið 1920. Lögregla segir hana hafa verið á leið að hitta vini í Bondeno en hún hafi líklega villst af leið í myrkrinu.
Ökuskírteini Giose rann út fyrir tveimur árum síðan. Á Ítalíu gilda þær reglur fyrir ökumenn yfir áttræðu að þeir þurfa að fara í læknisskoðun annað hvert ár svo þeir geti endurnýjað ökuréttindin.
Giose fékk því sekt og var keyrð heim af lögreglu. Hún segir í samtali við staðarblaðið La Nuova Ferrara að hún ætli bara að kaupa sér vespu. Þangað til heimsæki hún vinina á reiðhjóli.