Fótbolti

Stjarnan hótar að hætta í lands­liðinu eftir að for­setinn kallaði hana feita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marta Cox í leik með Panama í Gullbikarnum. Hún er besti leikmaður landsliðsins en mátti  greinilega ekki gagnrýna þróun mála í heimalandinu.
Marta Cox í leik með Panama í Gullbikarnum. Hún er besti leikmaður landsliðsins en mátti  greinilega ekki gagnrýna þróun mála í heimalandinu. Getty/Sean M. Haffey

Marta Cox, miðjumaður og stjarnan kvennalandsliðsins Panama í fótbolta, hótar því að leggja landsliðsskóna á hilluna og það er einum manni að kenna.

Panama sat eftir í riðlakeppni Gullbikarsins á dögunum án þess að fá stig og forseti panamska knattspyrnusambandsins var allt annað en sáttur. Liðið steinlá á móti bæði Kólumbíu og Brasilíu.

Cox hafði gagnrýnt aðstöðu fótboltafólks í Panama og það gerði forsetann Manuel Arias sótillan.

„Marta Cox ætti ekki að vera að tala um deildina okkar. Hún er ekki í formi, hún er feit og hún gat ekki hreyft sig inn á vellinum,“ sagði Arias við panamska fjölmiðla.

„Það er auðvelt fyrir hana að tala og gagnrýna en staðreyndin er sú að hún veit ekkert hvað er i gangi pamönsku deildinni enda ekki búin að vera hér í mörg ár,“ sagði Arias.

Marta Cox er 26 ára gömul og leikur með Tijuana í Mexíkó. Hún hefur spilað með liðið í Mexíkó síðustu ár.

„Ég bjóst við svo miklu meiru eftir að við fórum á HM. Löngunin eftir því að sjá framfarir fékk mig til að tala um þetta eftir slaka frammistöðu okkar í Gullbikarnum. Við erum fyrstar til að viðurkenna það að við stóðum okkur ekki vel en það þarf að skoða meira en okkur leikmennina,“ sagði Marta Cox. Hún skoraði fyrsta mark Panama á HM sögunni í fyrra.

„Ég persónulega tók það mjög nærri mér að það voru ákveðin orð notuð til að lýsa mér. Það kom mér í opna skjöldu. Ef framhald verður á slíku þá mun ég ekki snúa aftur til að spila fyrir panamska landsliðið,“ sagði Cox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×