Fótbolti

Svæfður í dá eftir al­var­legt höfuð­högg

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alberth Elis er landsliðsmaður Hondúras og leikmaður Bordeaux í Ligue 2.
Alberth Elis er landsliðsmaður Hondúras og leikmaður Bordeaux í Ligue 2. Sylvain Lefevre/Getty Images

Alberth Elis, leikmaður Bordeaux í næstefstu deild Frakklands, var settur í dá eftir harkalegt höfuðhögg í leik gegn Guingamp í gær. 

Atvikið átti sér stað strax á fyrstu mínútu leiksins sem Bordeaux endaði á að vinna 1-0. Alberth Elis rak hausum saman við varnarmann Guingamp, Donatien Gomis. Báðir leikmenn kveinkuðu sér mjög og leikur var stöðvaður í um átta mínútur meðan hlúið var að þeim. 

Alberth var borinn af velli og fluttur á spítala. Útvarpsstöðin France Bleu greindi svo frá því að leikmaðurinn hafi orðið fyrir mjög alvarlegu höfuðhöggi, verið svæfður og settur í dá á leiðinni á spítala. 

Albert Riera, þjálfari liðsins og fyrrum leikmaður Liverpool, tileinkaði Alberthi sigurinn að leik loknum. 

„Ég talaði við læknana, það er ekkert hægt að segja eins og er. Hann er á spítalanum. Þessi sigur var fyrir Alberth, vel verðskuldaður sigur.“

CANAL+ greinir frá því að Alberth hafi laggst undir hnífinn í nótt en sé enn haldið í dái. Ástand hans er að svo stöddu óljóst. 

Leikmaðurinn hefur verið Bordeaux mikilvægur á tímabilinu og skorað fimm mörk, en liðið situr tíu stigum utan fallsætis í næstefstu deild Frakklands, Ligue 2. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×