Fótbolti

„Lítil at­riði sem við getum bætt og munum bæta“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var nokkuð jákvæður eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Serbíu í fyrri leik liðanna í umspili um áframhaldandi veru í A-deild Þjóðadeildarinnar.

„Þetta er bara fyrri leikurinn og nú snýst þetta raunverulega bara um það að vera klár í seinni leikinn. Við byrjum undirbúning fyrir það bara í kvöld og förum að koma líkamanum alveg í lag til að vera klár á þriðjudaginn,“ sagði Þorsteinn í viðtali við RÚV í leikslok.

„Aðalmálið í svona tveggja leikja einvígi er að þú sért í þeirri stöðu að þú eigir alltaf góðan séns á því að koma þér áfram og þannig stöðu erum við í í dag.“

Serbneska liðið var líklegra til að stela sigrinum stærstan hluta leiksins, en Þorsteinn segir þó að það hafi ekki verið heppni sem sá til þess að íslensku stelpurnar sluppu með jafntefli.

„Auðvitað fenu þær einhver færi, en í rauninni ekkert opið færi. Þetta voru einhver skot fyrir utan teig fannst mér. En auðvitað var þetta ekkert besti leikurinn okkar, það er ekkert hægt að fara í grafgötur með það. En mér finnst við ekki vera í neinum stórkostlegum vandræðum. Aðalvesenið á okkur var að koma boltanum almennilega í spil þegar við vorum að vinna hann og við vorum að tapa honum of fljótt. Það vantaði yfirvegun á boltann og þær héldu okkur svolítið niðri af því að við vorum að rembast eitthvað. Við hreinsuðum mjög illa stundum og náðum aldrei að koma honum almennilega í burtu. Það voru svona lítil atriði sem við getum bætt og munum bæta.“

Íslenska liðið hefur nú þrjá daga til að undirbúa sig fyrir seinni leik liðanna sem fram fer á Kópavogsvelli næstkomandi þriðjudag.

„Við förum yfir leikinn og skoðum það sem þarf að laga. Svo bara vinnum við í því að finna lausnir við því,“ sagði Þorsteinn að lokum.


Tengdar fréttir

„Þetta var svolítið mikið bara eitthvað“

Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki nógu sátt með spilamennsku íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta eftir 1-1 jafntefli gegn Serbum í umspili um áframhaldandi veru í A-deild Þjóðadeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×