Veður

Hiti rís upp frá nýju hrauni og myndar bólstra í lofti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Skýin blasa við þeim sem aka um Reykjanesið eða í átt að því.
Skýin blasa við þeim sem aka um Reykjanesið eða í átt að því. Vísir/Lillý

Ef litið er frá höfuðborgarsvæðinu í átt að Reykjanesinu má í dag sjá röð skúraskýja frá nýju hrauni við Sundhnúkagíga og út á sjó.

„Þetta er hiti sem stígur upp frá hrauninu. Það er svo mikill óstöðugleiki í loftinu. Það eru skúrabólstrar, éljabólstrar, úti fyrir Reykjanesið og hafa verið í dag. Það stígur upp raki og þéttist í loftinu og myndar svona myndarlega bólstra,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands og að vel hafi verið tekið eftir þessu á skrifstofu Veðurstofunnar á Bústaðavegi í dag.

Skýin blasa við þeim sem aka um Reykjanesið eða í átt að því. Vísir/Lillý

Hún segir að svona ský hafi oft myndast líka yfir hrauni í Geldingadölum í samskonar veðri.

„Hraunið hitar loftið og það stígur upp og það þéttist rakinn í loftinu þegar það stígur upp.“

Á instagram-reikningi Veðuruglunnar sem haldið er úti af nokkrum náttúruvársérfræðingum á Veðurstofunni er fjallað um skýin en þar segir að þau kallist skúrasteðjar eða Cumuloninbus. Á vef Veðurstofunnar segir um skýin að skúraský séu mjög háreist ský sem geti náð frá lágskýjahæð upp til veðrahvarfa.

„Risavaxnir bólstrar virðast oft vaxa upp í gegnum þau og efst hafa þau lögun sem líkist steðja. Úr þeim falla skúrir, snjóél eða haglél. Snarpur vindur fylgir oft úrkomunni og stundum þrumur og eldingar. Sjá einnig fróðleik um skúraský.“

Hægt er að kynna sér ólíkar gerðir skýja hér á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×