Fyrirtækið styðst við hið svokallaða „holacracy“ aðferðafræði við stjórnun sem þýðir að hver einstaklingur er í ábyrgð fyrir sjálfum sér og sínum störfum, starfslýsing allra er mjög skýr en undir hverjum og einum komið að sýna árangur og verkstýra sjálfum sér.
„Í raun má líkja þessum strúktúr við frumurnar líkamanum okkar. Þær eru allar sjálfstæðar en þurfa þó að virka saman til að líkamsstarfsemin gangi upp,“ segir Anna.
Kolibri mældist Besti vinnustaðurinn 2023 samkvæmt viðmiðunum Great Place to Work (GPTW), en það var fyrirtækið CCP sem hlaut þessa viðurkenningu fyrst íslenskra vinnustaða árið 2020.
Í gær og í dag, fjallar Atvinnulífið um bestu vinnustaðina þar sem rýnt er í, hvað stendur uppúr að mati þeirra sem eru að ná árangri.
Engin vinnugríma nauðsynleg
Hjá Kolibri starfa 25 manns og tók allt starfsfólk þátt í þeirri vinnustaðagreiningu sem höfð er til hliðsjónar þegar mæling GPTW fer fram.
Í sínum stærðarflokki var Kolibri í fyrsta sæti á Íslandi sem besti vinnustaðurinn og í fimmta sæti í Evrópu.
Anna segir allar niðurstöður hafa mælst ótrúlega vel en það sé þó ekkert sjálfgefið að hennar mati.
„Að byggja upp og viðhalda sterkum vinnustaðakúltúr í 25 manna fyrirtæki á litla Íslandi er eflaust auðveldari í einhverju samhengi. Við upplifðum þetta þó sem mikilvægt klapp á öxlina því þarna erum við að sjá samanburð við ýmiss stórfyrirtæki út í heimi, þekkt alþjóðleg fyrirtæki sem reka stórar mannauðsdeildir og eru með stóra yfirbyggingu, eitthvað sem við erum ekki með hér,“ segir Anna.
Anna viðurkennir þó að langa til að sjá samanburð við fleiri erlend hugbúnaðarfyrirtæki en um þessar mundir standa yfir mælingar fyrir Besta vinnustaðinn árið 2024.
Það sem ég tel vera skýra út að stórum hluta hversu vel við erum að mælast, er það sálfræðilega öryggi sem starfsfólk er að upplifa í vinnunni.
Um þetta er spurt sérstaklega og það sem niðurstöðurnar eru að sýna okkur er að fólkinu okkar líður vel í vinnunni og hér er engin vinnugríma nauðsynleg. Við leggjum mjög mikið upp úr þessu.“
Þar vísar hún í gildi fyrirtækisins, sem meðal annars fela í sér að samskipti séu góð, opin og hreinskiptin.
„Hér er yfirlýst stefna sú að við trúum því besta í fólki og í niðurstöðunum mátti líka sjá að okkur er annt um hvort annað.“
Þá segir Anna mikilvægt að allt starfsfólkið hafi rödd.
„Tvisvar á ári erum við með samstillingardaga þar sem við förum út úr húsi og stillum saman strengi, ræðum um allt, setjum okkur markmið og fleira. Við lítum svo á að hver einasti starfskraftur hér sé eignaraðili að fyrirtækinu og hafi um það að segja, hvert við stefnum.“

Góðu ráðin: Jafnvægi og jafnrétti
Anna segist afar ánægð með að sjá á niðurstöðum, hversu vel jafnréttið er að mælast.
Fólk er greinilega að upplifa sig 100% öruggt á vinnustaðnum, óháð kyni, kynhneigð, aldri, reynslu, menntun og svo framvegis.
En ég er líka sérstaklega ánægð með að sjá hversu vel það er að mælast að fólk upplifir gott jafnvægi á milli einkalífs og vinnu.“
Í tæknigeiranum sé viðurkennt að enn halli nokkuð á konur.
„Ég skal alveg viðurkenna það að jafnrétti kynjanna hefur alveg verið áskorun fyrir okkur. Það eru fleiri karlmenn í þessu geira, það er staðreynd og þess vegna hef ég lagt áherslu á það hér innanhús að peppa konurnar því þær fá ekki jafn mikið pláss í geiranum. Þó þarf að huga að því að halda ákveðnu jafnvægi. Við viljum ekki að það halli á karlana eða önnur kyn heldur.“
Í samkeppni á markaði, skipta niðurstöður sem þessar líka miklu máli.
„Í tæknigeiranum er slegist um fólk, eftirspurnin eftir góðu tæknifólki er svo mikil og í geiranum eru há laun í boði. Ráðningar eru því mikilvæg fjárfesting en það er ekki nóg, því það þarf líka að vinna að því statt og stöðugt að fólkið sem hér er, vilji vinna hér sem lengst þótt það geti auðveldlega fengið vinnu annars staðar.“
Hjá Kolibri er yngsti starfsmaðurinn tuttugu og eins árs en sá elsti sextugur. Flest eru á aldrinum þrítugs og fertugs.
„Eflaust er meðalaldurinn okkar ekki hár en við erum meðvituð um að fjölbreytnin skiptir miklu máli. Við vinnum mikið í teymum og gerum þetta þá þannig að reyna að vera með sem fjölbreyttasta hópinn í hverju verkefni fyrir sig. Til þess einfaldlega að fá sem mestu breiddina inn í það sem við erum að skapa og gera enda trúum við því að fjölbreytni skapi betri stafrænar lausnir,“ segir Anna og bætir við:
„Ég held líka að þessi valddreifing sem við styðjumst við sem strúktúr gefi fleirum kost á að gegna lykilhlutverkum. Ég til dæmis er framkvæmdastjóri en tek ekki ákvarðanir ein, heldur með öðrum.“
Starfsþróun og ný tækifæri mælir Anna með að séu til staðar.
„Það er til dæmis forritari hjá okkur núna að fókusera sérstaklega á mannauðsmálin. Einfaldlega vegna þess að viðkomandi brennur fyrir þessum málum sérstaklega og langaði til að spreyta sig á þeim.“
„Við leggjum mikla áherslu á frumkvæði og drifkraft og þegar að við ráðum fólk, horfum við alltaf fyrst og fremst á það hvort viðkomandi aðili hafi þau element og sé þar með líklegur til að falla vel inn í okkar kúltúr. Við erum meðal annars að skoða að setja mentora-prógramm á koppinn til að gera endurgjöf að enn markvissari parti af okkar kúltur. Þetta er hugmynd sem kom upp á síðasta samstillingardeginum okkar.“
Anna segist vongóð um niðurstöður næstu mælingar.
„Mér finnst líka skipta svo miklu máli að við erum öll að taka þátt í að byggja upp kúltúrinn hér, að svara þessari könnun og svo framvegis. Að fá síðan svona niðurstöður er mikið pepp og alltaf gott að fá klapp á bakið. Ekki síst þegar samanburðurinn er alþjóðlegur.“