Fótbolti

Völler minnist Brehme: Var HM-hetjan okkar en líka svo miklu meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudi Völler og Andreas Brehme fagna saman heimsmeistaratitli Þjóðverja árið 1990.
Rudi Völler og Andreas Brehme fagna saman heimsmeistaratitli Þjóðverja árið 1990. Getty/David Cannon

Rudi Völler, fyrrum framherji og þjálfari þýska fótboltalandsliðsins, er einn þeirra sem hefur minnst Andreas Brehme sem lést úr hjartaáfalli aðeins 63 ára gamall.

Völler og Brehme voru saman í þýska heimsmeistaraliðinu á HM á Ítalíu 1990. Völler fiskaði vítið sem Brehme skoraði sigurmarkið úr í úrslitaleiknum á móti Argentínu.

„Ég trúi þessu ekki. Fréttirnar af óvæntu fráfalli Andreas gera mig ótrúlega leiðan,“ sagði Rudi Völler sem starfar núna sem yfirmaður þýska landsliðsins. Stutt viðtal við hann birtist á heimasíðu þýska sambandsins.

„Andy var HM-hetjan okkar en líka svo miklu meira. Hann var náinn vinur minn og félagi allt til dagsins í dag,“ sagði Völler.

„Ég mun sakna hinnar yndislegu lífsgleði hans. Hugur minn er nú hjá fjölskyldu hans, vinum og þá sérstaklega tveimur sonum hans. Ég óska þess að þeir finni styrk,“ sagði Völler.

„Andreas Brehme er einn af farsælustu og bestu fótboltamönnunum í sögu Þýskalands. Þýskur fótbolti á honum mikið að þakka. Ásamt Mario Gotze, Gerd Muller og Helmut Rahn þá er hann einn af fjórum leikmönnum sem tryggðu þjóð okkar heimsmeistaratitilinn,“ sagði Bernd Neuendorf, forseti þýska sambandsins.

„Sterkar taugar hans og hversu öflugur hann var í návígi. Hann var jafnfættur með frábærar fyrirgjafir, góðar sendingar og lagði sig alltaf mikið fram. Allt þetta var hans auðkenni en gaf okkur svo mikla ánægju og líka svo margar frábærar stundir,“ sagði Neuendorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×