Handbolti

Sögu­legur samningur hjá Sig­valda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson fagnar hér einu af mörkum sínum á EM í Þýskalandi í janúar.
Sigvaldi Guðjónsson fagnar hér einu af mörkum sínum á EM í Þýskalandi í janúar. Vísir/Vilhelm

Íslenski landsliðsmaðurinn Sigvaldi Guðjónsson hefur skrifað undir nýjan og sögulegan samning við norska félagið Kolstad.

Sigvaldi skrifar undir lengsta samninginn í sögu félagsins en hann er til sex ára og gildir því til ársins 2030. Kolstad segir frá samningnum á heimasíðu sinni.

Árið 2030 þá verður Sigvaldi orðinn 36 ára gamall. Hann er fyrirliði liðsins í dag.

„Nei, nei ég verð ekki orðinn gamall maður þá,“ sagði Sigvaldi hlæjandi í viðtali við heimasíðu félagsins.

„Ég er heldur ekki að hugsa um að hætta í handbolta árið 2030,“ sagði Sigvaldi.

Það hafa farið fram viðræður á milli Sigvalda, umboðsmanns og framkvæmdastjóra Kolstad.

„Ég hélt alltaf að það myndi ekki fara mikill tími í þetta og ég bjóst alltaf við þessum endi. Báðir aðilar vildu langan samning en ég sá þó ekki fyrir að hann yrði til ársins 2030. Þetta er lengsti samningurinn sem ég hef skrifað undir,“ sagði Sigvaldi.

„Ég hef mikla trú á því sem er í gangi hjá Kolstad. Mér finnst ég hafa mikilvægt hlutverk og get lagt mitt að mörkunum til þess að við getum spilað Meistaradeildarhandbolta í mörg ár. Líka barist um sæti á úrslitahelginni,“ sagði Sigvaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×