Fótbolti

Bayern muni veita Liverpool sam­keppni um Alonso

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Xabi Alonso verður að öllum líkindum eftirsóttur í sumar.
Xabi Alonso verður að öllum líkindum eftirsóttur í sumar. Rene Nijhuis/MB Media/Getty Images

Líklegt þykir að þýska stórveldið Bayern München muni veita Liverpool samkeppni um Xabi Alonso, þjálfara Bayer Leverkusen, í sumar.

Gengi Bayern á tímabilinu hefur ekki verið upp á marga fiska á mælikvarða stórveldisins. Liðið er fimm stigum á eftir Bayer Leverkusen í toppbaráttunni í þýsku úrvalsdeildinni, úr leik í þýsku bikarkeppninni og með bakið upp við vegg eftir 1-0 tap gegn Lazio í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Sætið er því farið að hitna undir Thomas Tuchel, þjálfara liðsins, og talið er að líklegra verði með hverjum deginum að hann verði látinn taka poka sinn.

Breski miðillinn The Times er einn þeirra sem greinir frá því að líklega sé farið að styttast í að Tuchel verði látinn fara frá Bayern og að félagið ætli sér þá að veita Liverpool samkeppni um að ráða Xabi Alons sem sinn næsta stjóra.

Alonso er talinn líklegasti arftaki Jürgen Klopp hjá Liverpool eftir að Þjóðverjinn greindi frá því að hann muni stíga til hliðar sem stjóri félagsins að yfirstandandi tímabili loknu. Xabi Alonso er fyrrverandi leikmaður bæði Liverpool og Bayern München og verður því áhugavert að fylgjast með því hvar Spánverjinn endar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×