Fótbolti

„Fé­lagið og liðið mikil­vægara en nokkur ein­stak­lingur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé mun yfirgefa PSG í sumar.
Kylian Mbappé mun yfirgefa PSG í sumar. James Gill - Danehouse/Getty Images

Luis Enrique, knattspyrnustjóri franska stórveldisins Paris Saint-Germain, segir að félagið og liðið sé mikilvægara en nokkur einstaklingur eftir að stórstjarnan Kylian Mbappé sagði forráðamönnum félagsins frá því að hann ætli sér að yfirgefa PSG í sumar.

Samningur Mbappé við PSG rennur út í sumar og leikmaðurinn hefur þegar tjáð forráðamönnum félagsins að hann muni ekki leika með liðinu á næsta tímabili. Eins og svo oft áður er franski framherjinn sterklega orðaður við spænska stórliðið Real Madrid.

Luis Enrique, knattspyrnustjóri PSG, hefur lítið viljað tjá sig um fréttirnar af Mbappé, en hann segir þó að félagið og liðið sé mikilvægara en einn einstaklingur.

„Ég get ekkert sagt. Aðilarnir sem um ræðir hafa ekkert sagt opinberla. Kylian Mbappé hefur ekkert sagt opinberlega. Þegar báðir aðilar hafa tjáð sig þá mun ég segja mína skoðun,“ sagði Enrique á blaðamannafundi í gær.

„Við höldum okkar vinnu áfram. Okkar skilaboð eru að félagið og liðið er mikilvægara en nokkur einstaklingur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×