Fótbolti

Harð­neitaði að ræða um Mbappé

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé ætlar að kveðja PSG í sumar og ekkert virðist geta breytt því.
Kylian Mbappé ætlar að kveðja PSG í sumar og ekkert virðist geta breytt því. Getty/Christian Liewig

Luis Enrique, knattspyrnustjóri Paris Saint-Germain, neitaði að tjá sig um yfirvofandi brottför sinnar helstu stórstjörnu, Kylian Mbappé, næsta sumar.

Mbappé hefur tilkynnt PSG að hann muni yfirgefa félagið í sumar, eftir að samningur hans rennur út, og búist er við því að hann gangi í raðir Real Madrid.

„Nei, ég get ekkert sagt. Aðilarnir sem um ræðir hafa ekkert sagt opinberla. Kylian Mbappé hefur ekkert sagt opinberlega. Þegar báðir aðilar hafa tjáð sig þá mun ég segja mína skoðun,“ sagði Enrique á blaðamannafundi í dag.

Blaðamaðurinn virti Fabrizio Romano segir að Mbappé vilji ekki einu sinni sjá tilboð frá PSG því hann sé staðráðinn í að fara frá félaginu. Franska félagið hafi undirbúið sig fyrir brottför hans síðan í desember og ætli í staðinn að kaupa toppframherja, toppmiðjumann og toppmiðvörð í sumar.

Arteta vill að Arsenal sé með í umræðunni

Þó að flest virðist benda til þess að Mbappé fari til Real Madrid þá hefur hann einnig verið sagður opinn fyrir því að fara til Arsenal. 

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, fékk þá spurningu á blaðamannafundi í dag hvort að hann hefði áhuga á að fá Mbappé, jafnvel þó að allir vissu hvert hann væri að fara:

„Vitið þið það?“ spurði Arteta léttur. „Þegar um er að ræða leikmann í þessum gæðaflokki þá eigum við alltaf að vera í umræðunni, en eins og þið segið þá virðist þetta stefna í aðra átt,“ sagði Arteta sem var svo spurður frekar út í það hvort Arsenal gæti verið með í umræðunni um Mbappé.

„Af hverju ekki? Ef við viljum verða besta liðið þá þurfum við mestu hæfileikabúntin og bestu leikmennina. Ég kem ekki að þessu. Kannski Edu og eigendurnir en ég er ekki með í samtölunum fyrr en í lokin,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×