Sport

Annað á­fall fyrir Kenía: Dæmd í átta ára bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarah Chepchirchir verður orðin 46 ára gömul þegar hún má keppa á ný.
Sarah Chepchirchir verður orðin 46 ára gömul þegar hún má keppa á ný. EPA/KIYOSHI OTA

Frjálsar íþróttir í Kenía urðu fyrir einn einu áfallinu í gær þegar fyrrum sigurvegari í Tókýó maraþoninu var dæmd í langt keppnisbann.

Þetta gerðist aðeins nokkrum dögum eftir að stærsta íþróttastjarna þjóðarinnar, maraþonhlauparinn Kelvin Kiptum, lést í bílslysi.

Sarah Chepchirchir var dæmd í átta ára bann fyrir að falla á lyfjaprófi. Bannið er svo langt af því að þetta er í annað skiptið sem hún fellur á lyfjaprófi.

Chepchirchir féll á lyfjaprófi sem var tekið í Tælandi í nóvember. Of mikið magn af testósteróni fannst í sýni hennar.

Hún var áður í banni frá 2018 til 2022 en það fékk hún eftir að hún fannst með óeðlilegan fjölda af rauðum blóðkornum í blóðinu.

Chepchirchir er orðin 39 ára gömul en hún vann Tókýó maraþonið árið 2017.

Hún hefði getað minnkað bannið um eitt ár með því að viðurkenna brot sín en gerði það ekki.

Í síðasta mánuði voru kenísku hlaupararnir Hosea Kimeli Kisorio og Ayub Kiptum einnig dæmdir í þriggja ára bann fyrir ólöglega steranotkun. Það hafa því mörg áföll bankað að dyrum í kenísku íþróttalífi á síðustu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×