Fótbolti

For­setinn gaf öllum leik­mönnum milljónir og líka ein­býlis­hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alassane Ouattara forseti með Max-Alain Gradel  sem lyftir bikarnum eftir sigur Fílabeinsstrandarinnar í Afríkukeppninni.
Alassane Ouattara forseti með Max-Alain Gradel  sem lyftir bikarnum eftir sigur Fílabeinsstrandarinnar í Afríkukeppninni. AP/Themba Hadebe

Fílabeinsströndin tryggði sér Afríkumeistaratitilinn með sigri á Nígeríu í úrslitaleik um helgina og það er óhætt að segja að forseti landsins hafi metið mikið framlag þeirra.

Alassane Ouattara, forseti Fílabeinsstrandarinnar, tók á móti leikmönnum liðsins í gær og færði þeim gjafir með þökkum frá þjóðinni.

Liðið vann úrslitaleikinn 2-1 með mörkum frá Franck Kessié og Sébastien Haller. Þetta var í þriðja sinn sem knattspyrnulið þjóðarinnar er Afríkumeistari en það vann líka 1992 og 2015.

Allir leikmenn liðsins fengu fimmtíu milljónir CFA-franka hver en það jafngildir 11,3 milljónum íslenskra króna. Þeir fengu líka allir einbýlishús að gjöf.

Emerse Fae þjálfari fékk reyndar tvöfaldan bónus en hann tók við liðinu af Jean-Louis Gasset á miðju móti. Gasset var rekinn eftir slaka frammistöðu i riðlakeppninni en liðið skreið inn í útsláttarkeppnina og fór síðan alla leið.

„Þið hafið allir fært allir þjóðinni svo mikla hamingju, bravó, bravó,“ sagði Alassane Ouattara, forseti. Hann sæmdi leikmennina líka hæstu orðu þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×