Enski boltinn

Eriks­son fær hinstu óskina upp­fyllta á Anfield

Sindri Sverrisson skrifar
Sven-Göran Eriksson er stuðningsmaður Liverpool og fær að stýra liðinu á Anfield í einn dag.
Sven-Göran Eriksson er stuðningsmaður Liverpool og fær að stýra liðinu á Anfield í einn dag. Getty/Massimo Insabato

Sænski fótboltaþjálfarinn Sven-Göran Eriksson, sem kveðst í besta falli eiga ár eftir ólifað, fær draum sinn um að stýra Liverpool uppfylltan í næsta mánuði.

Enska félagið greindi frá þessu í dag en Eriksson verður í þjálfarateymi Liverpool þegar liðið mætir Ajax á Anfield, í „goðsagnaleik“ fyrrverandi leikmanna.

Í tilkynningu frá Liverpool segir að Eriksson verði í teymi með goðsögnum á borð við Ian Rush, John Barnes og John Aldridge, en um árlegan góðgerðaleik er að ræða.

„Allir sem tengjast félaginu og LFC Foundation hlakka til að taka hlýlega á móti Liverpool-stuðningsmanninum Sven og fjölskyldu hans á Anfield, og sjá hann að störfum á hliðarlínunni, í frábærri góðgerðasöfnun,“ segir í tilkynningu Liverpool.

Eriksson greindi frá því í viðtali við P1 í Svíþjóð fyrir mánuði síðan að hann væri með ólæknandi krabbamein í brisi.

„Það er hægt að hægja á því en meinið er ekki skurðtækt. Ég veit að ég á í besta falli ár eftir, í versta falli minna, kannski aðeins lengra. Læknarnir geta ekki verið vissir og sagt að þetta gerist þennan dag og þar fram eftir götunum. Það er betra að vita þetta ekki,“ sagði Eriksson.

Hann byrjaði að glíma við heilsubrest í byrjun árs 2023 og dró sig þá í hlé frá störfum sínum fyrir Karlstad þar sem hann var íþróttastjóri.

Eriksson kom víða við á löngum þjálfaraferli og vann titla í Svíþjóð, Portúgal og á Ítalíu. Hann gerði Lazio meðal annars að ítölskum meisturum 2000, eftir að hafa unnið Evrópukeppni bikarhafa með liðinu, og ári seinna tók hann við enska landsliðinu. Svíinn stýrði því á þremur stórmótum áður en hann hætti með það 2006. Síðasta þjálfarastarf Eriksson, sem er 76 ára gamall, var hjá landsliði Filippseyja árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×