Enski boltinn

New­cast­le hafði betur í marka­leik í Skíris­skógi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bruno Guimares fagnar öðru marka sinna með stuðningsmönnum Newcastle.
Bruno Guimares fagnar öðru marka sinna með stuðningsmönnum Newcastle. Vísir/Getty

Bruno Guimares skoraði tvö mörk fyrir Newcastle sem gerði góða ferð í Skírisskóg og vann sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn í dag var fjörugur. Bruno Guimares kom Newcastle yfir á 10. mínútu en Anthony Elanga jafnaði metin fyrir heimaliðið þegar hann slapp einn í gegnum vörn Newcastle.

Varnarmaðurinn Fabian Schär kom Newcastle aftur í forystuna á 44. mínútu en Schär hefur verið duglegur að finna netmöskva andstæðinganna á tímabilinu. Á sjöttu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði hins vegar Callum Hudson-Odoi en skot hans utan við teig breytti um stefnu af varnarmanni og endaði í netinu.

Á 60. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu þegar Taiwo Awoniyi féll í teignum eftir að hafa sloppið í gegnum vörn gestanna. Martin Dubravka markvörður Newcastle fór út í boltann og virtist snerta Awoniyi en Anthony Taylor dómari mat snertinguna ekki nægilega mikla til að flauta víti.

Sjö mínútum síðar kom sigurmarkið. Það skoraði Guimares fyrir Newcastle og tryggði gestunum sætan 3-2 sigur. Heimaliðið pressaði duglega undir lokin en lærisveinar Eddie Howe hélt út og fer upp í 7. sætið með sigrinum. Gestirnir eru hins vegar áfram í fallbaráttu og tveimur stigum fyrir ofan Everton sem er í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×