Þetta má lesa úr fremur torræðri tilkynningu frá Eflingu. Þar segir að félagsfólk Eflingar hafi ítrekað á umliðnum árum upplifað virðingarleysi gagnvart samningsrétti sínum, hagsmunum og tilveru. Ekkert ætti þó að vera því til fyrirstöðu að hægt verði að ljúka samningaviðræðunum á innan við viku, að mati samninganefndar og trúnaðarráðs.
„Félagsfólk Eflingar hefur komið verulega til móts við Samtök atvinnulífsins og á heimtingu á því að samningsvilji þeirra sé endurgoldinn. Samninganefnd og trúnaðarráð treysta því jafnframt að ríkissáttasemjari geri sitt til að liðka fyrir viðræðum.“

Áðurnefnt virðingarleysi hefur, að sögn Eflingar, birst af hálfu viðsemjenda Eflingar, sem og af embætti ríkissáttasemjara.
„Tími slíks virðingarleysis í garð verka- og láglaunafólks er liðinn, og félagsfólk Eflingar er tilbúið að beita sér af fullri hörku til að þeim sé sýnd eðlileg lágmarksvirðing.“
Ekki verður séð annað en Efling telji sig hafa gefið allt eftir sem hægt er og eru tilbúnir í aðgerðir ef kröfum þeirra verður ekki mætt.
Samningaviðræður eru nú yfirstandandi milli breiðfylkingarinnar svonefndrar og Samtaka atvinnulífsins. En þar er tekist á um forsenduákvæði samninga til fjögurra ára. Framlag ríkisins ræður miklu um hvort samningar takist.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar var spurð út í gang samningaviðræðna að loknum fundi breiðfylkingarinnar svonefndu með helstu ráðherrum í gær. Þá svaraði hún því til að hún væri í fjölmiðlabanni. En það var fremur þungt yfir Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sem vildi ekki svara því hvort viðræðurnar við SA væru að ganga upp.
„Við höldum bara fundarhöldum áfram á morgun. Það hlýtur að draga til tíðinda fljótlega,“ sagði formaður VR.