Fótbolti

Héldu fyrir munninn þegar eigin þjóð­söngur var spilaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chancel Mangulu Mbemba, leikmaður Kongó, sést hér halda fyrir munninn og setja tvo putta upp að gagnauganu þegar þjóðsöngurinn var spilaður.
Chancel Mangulu Mbemba, leikmaður Kongó, sést hér halda fyrir munninn og setja tvo putta upp að gagnauganu þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Getty/Ulrik Pedersen

Leikmenn landsliðs Kongó vöktu allir sem einn athygli á hryllilegu ástandi í heimalandinu þegar þeir spiluðu einn stærsta fótboltaleikinn í sögu þjóðarinnar i gærkvöldi.

Kongó var að spila undanúrslitaleik í Afríkukeppninni á móti Fílabeinsströndinni. Leikurinn tapaðist á endanum 1-0 og því spila Kongómenn um þriðja sætið.

Fyrir leikinn töluðu leikmennirnir um ástandið í landi þeirra og að þeir stæðu með fórnarlömbum ofbeldis heima fyrir. Þær vildu líka vekja alþjóða athygli á stöðu mála sem þeir svo gerðu.

Leikmennirnir héldu fyrir munninn þegar þjóðsöngurinn þeirra var spilaður og auk þess sem þeir settu tvo fingur við gagnaugað.

Þetta á að tákna það að verið sé að drepa fólk í Kongó en að enginn tali um það.

Kongó hafði áður slegið út Egyptaland og Gíneu í sextán liða og átta liða úrslitunum.

Þetta er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó eða Austur-Kongó en það er mikill óstöðugleiki og pólitísk átök í landinu eftir ágreining um niðurstöður kosninga í fyrra. Stjórnvöld eru líka að glíma við skæruliðasamtök í austurhluta landsins.

Austur-Kongó er í Mið-Afríku og er þriðja stærsta land álfunnar. Það hefur áður heitið Belgíska Kongó, Kongó-Kinsasa og Saír (til 1997). Það á landamæri að Lýðveldinu Kongó í vestri, Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan í norðri, Úganda, Rúanda, Búrúndí og Tansaníu í austri, og Sambíu og Angóla í suðri.

Íbúar Kongó eru yfir 90 milljónir talsins. Landið er fimmtánda fjölmennasta land heims og það fjórða fjölmennasta í Afríku. Bardagar í landinu hafa hrakið margar milljónir á flótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×