Enski boltinn

Arteta „elskaði“ rifrildi leik­manna sinna inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta og Oleksandr Zinchenko fara yfir málin með útiröddunum sínum eftir leikinn í gærkvöldi.
Mikel Arteta og Oleksandr Zinchenko fara yfir málin með útiröddunum sínum eftir leikinn í gærkvöldi. AP/Rui Vieira

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var bara ánægður með að sjá leikmenn sína Oleksandr Zinchenko og Ben White rífast í lokin á leik Arsenal og Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arteta og aðstoðarmaður hans Nicolas Jover, þurftu að lokum að skilja á milli liðsfélaganna sem voru allt annað en sáttir við hvorn anann.

Gabriel Jesus og Bukayo Saka komu Arsenal í 2-0 en Taiwo Awoniyi minnkaði muninn á 89. mínútu. David Raya, markvörður Arsenal, þurfti síðan að taka á stóra sínum til að koma í veg fyrir að Awoniyi jafnaði metin.

Arsenal hékk á sigrinum og stigin þrjú koma liðinu upp í annað sætið. Liðið átti þó að vera löngu búið að gera út um leikinn.

„Ég elska þetta. Þeir eru að krefjast meiru frá hvorum öðrum. Þeir eru ekki ánægðir með markið sem við fengum á okkur og þeir eru að reyna að finna réttu lausnina,“ sagði Mikel Arteta eftir leikinn.

„Það var smá hiti í þessu og það þýðir að það var komið nóg. Við áttum að vinna stærri sigur miðað við það hvernig við spiluðum og við áttum að halda markinu hreinu,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×