Fótbolti

Ísak og fé­lagar í undan­úr­slit eftir vítakeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísak Bergmann  og félagar eru komnir í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar.
Ísak Bergmann  og félagar eru komnir í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar. Vísir/Getty

Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Fortuna Düsseldorf eru komnir í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar eftir útisigur gegn St. Pauli í vítaspyrnukeppni í kvöld.

Gestirnir í Düsseldorf tóku forystuna á 38. mínútu þegar Vincent Vermeij skoraði úr vítaspyrnu sem hann hafði fiskað sjálfur og staðan var því 1-0, Düsseldorf í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn fengu þó einnig vítaspyrnu í leiknum og Marcel Hartel jafnaði metin fyrir St. Pauli eftir um klukkutíma leik.

Reyndist það seinasta mark venjulegs leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar til að reyna að skera úr um sigurvegara. Ísak Bergmann var tekinn af velli fyrir framlenginguna, en Japaninn Ao Tanaka kom gestunum yfir á nýjan leik á 99. mínútu.

Það leit allt út fyrir að það yrði sigurmark leiksins og ekki batnaði útlitið fyrir heimamenn þegar Fabian Hurzeler fékk að líta sitt annað gula spjald á 120. mínútu og þar með rautt. Þrátt fyrir liðsmuninn tókst Carlo Boukhalfa að jafna metin fyrir St. Pauli á fyrstu mínútu uppbótartíma framlengingarinnar og því var gripið til vítaspyrnukeppni til að skera úr um úrslit leiksins.

Heimamenn í St. Pauli höfðu yfirhöndina í vítaspyrnukeppninni eftir að gestirnir höfðu misnotað aðra spyrnuna sína. Þeir klikkuðu þó á fjórðu og fimmtu spyrnunni sinni á meðan gestirnir í Düsseldorf nýttu allar þær spyrnur sem þeir áttu eftir og Düsseldorf er þar með á leið í undanúrslit á kostnað St. Pauli sem situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×