Enski boltinn

Guardiola kaldhæðinn: „Kannski heldur United að allt breytist með Berrada“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola virðist ekki hafa miklar áhyggjur af Manchester United.
Pep Guardiola virðist ekki hafa miklar áhyggjur af Manchester United. getty/ James Gill

Omar Berrada, sem hefur verið ráðinn forstjóri Manchester United, mun ekki laga vandamál félagsins einn og sér. Þetta segir Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, félagsins sem Berrada hefur starfað fyrir undanfarin ár.

Sir Jim Ratcliffe er byrjaður að taka til hendinni hjá United eftir að hafa fest kaup á fjórðungshlut í félaginu og hefur ráðið Berrada sem forstjóra þess.

Berrada starfaði áður fyrir City og er talinn eiga stóran þátt í árangri liðsins undanfarin ár. Guardiola þekkir hann því vel en telur að Berrada einn og sér muni ekki laga það sem er að hjá United.

„Þekking hans fer til United. Það er staðreynd. En Kevin De Bruyne er enn hjá Manchester City. Hann mun spila hér. Erling Haaland mun spila hér svo þetta er ekki svona einfalt. Annars hefði jafn valdamikið félag og United verið búið að gera þetta áður. Kannski heldur United að allt breytist með honum. Til hamingju. Ég veit ekki hvort það gerist,“ sagði Guardiola.

„Hann er indæll maður, frábær karakter og ótrúlega mikill fagmaður. Þegar ég hitti hann í gær föðmuðust við og ég óskaði honum alls hins besta því hann er hann er frábær manneskja. En ég veit ekki hvort hann breytir öllu með að smella fingrum. Ef það gerist þurfa þeir að nefna stúku í höfuðið á honum því hann ætti það skilið,“ bætti Guardiola kaldhæðinn við.

Guardiola og strákarnir hans mæta Tottenham í ensku bikarkeppninni í kvöld. City vann keppnina á síðasta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×