Enski boltinn

Fyrir­liði enska lands­liðsins sneri aftur eftir níu mánaða fjar­veru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leah Williamson býr sig undir að koma inn á í leik Reading og Arsenal.
Leah Williamson býr sig undir að koma inn á í leik Reading og Arsenal. getty/Ryan Pierse

Leah Williamson, fyrirliði enska fótboltalandsliðsins, sneri aftur á völlinn eftir níu mánaða fjarveru þegar Arsenal vann Reading í enska deildabikarnum í gær.

Williamson sleit krossband í hné í leik gegn Manchester United apríl á síðasta ári. Hún var frá keppni í níu mánuði vegna þeirra og missti meðal annars af heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi þar sem England endaði í 2. sæti.

Hin 26 ára Williamson sneri loks aftur á völlinn þegar Arsenal vann stórsigur á Reading, 0-6, í enska deildabikarnum í gær.

Hún kom inn á eftir rúmlega klukkutíma leik og var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 80. mínútu lagði Williamson nefnilega fimmta mark Arsenal upp fyrir Beth Mead. 

Stina Blackstenius var í stuði í leiknum í gær og skoraði þrennu. Mead, Caitlin Foord og Laia Codina skoruðu sitt markið hver.

Williamson hefur leikið með Arsenal allan sinn feril. Hún hefur spilað 43 leiki fyrir enska landsliðið og var fyrirliði þess þegar það vann EM á heimavelli 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×