Enski boltinn

Reiður Klopp kom Salah til varnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah sneri aftur til Englands eftir að hafa meiðst á Afríkumótinu.
Mohamed Salah sneri aftur til Englands eftir að hafa meiðst á Afríkumótinu. getty/Ulrik Pedersen

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom Mohamed Salah til varnar þegar fréttamaður efaðist um heilindi Egyptans.

Salah meiddist í leik Egyptalands og Gana á Afríkumótinu í síðustu viku. Hann fór í kjölfarið aftur til Englands. Ekki er þó loku fyrir það skotið að Salah snúi aftur til Fílabeinsstrandarinnar, þar sem Afríkumótið fer fram, og spili í útsláttarkeppninni.

Einhverjir hafa efast um heilindi Salahs og segja að hann hafi valið félagsliðið sitt fram yfir landsliðið. Eftir 1-1 jafntefli Liverpool og Fulham í undanúrslitum enska deildabikarsins í gær var Klopp spurður út í þessa umræðu. Og hann brást ókvæða við.

„Ég get ekki tekið þátt í þessari umræðu. Egyptaland og Liverpool vilja bæði að Salah nái sér af meiðslunum sem fyrst. Ef hann dvelur þarna og getur ekki farið í gegnum endurhæfingu tefur það allt, sérstaklega fyrir Egyptaland, ef liðið fer áfram í mótinu,“ sagði Klopp.

„Við fengum hann ekki hingað því við viljum taka hann frá Egyptalandi heldur því við viljum bjóða honum upp á bestu mögulegu meðferðina. Þetta er allt klappað og klárt. Ef Egyptaland fer í úrslit fer Mo aftur, hundrað prósent. Mo vill það. Einhverjir hafa efast um heilindi Salah en þeir ættu að líta í eigin barm því Mo er tryggasti Egypti sem ég hef hitt á ævinni.“

Liverpool tryggði sér sæti í úrslitum deildabikarsins með jafnteflinu við Fulham í gær. Rauði herinn vann fyrri leikinn á Anfield, 2-1, og einvígið því 3-2 samanlagt.

Egyptaland mætir Kongó í sextán liða úrslitum Afríkumótsins á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×