Fótbolti

Bayern jafnaði tvisvar á loka­mínútunum gegn Roma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís Perla var í hjarta varnarinnar hjá Bayern gegn Roma.
Glódís Perla var í hjarta varnarinnar hjá Bayern gegn Roma. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Roma og Bayern München gerðu 2-2 jafntefli þegar liðin mættust í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern, spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar. 

Rómverjar komust yfir í fyrri hálfleik eftir mark Valentinu Giacinti á 33. mínútu. Hún fékk svo gult spjald tíu mínútum síðar fyrir kjaftbrúk. Eftir æsispennandi keppni var það Lea Schüller sem jafnaði metin á 87. mínútu en leikurinn var langt frá því að vera búinn. 

Manuela Giugliano hélt hún hefði tryggt sigurinn fyrir Roma með marki á 93. mínútu eftir góðan undirbúning Elisu Bartoli. En aftur kom Lea Schüller Bæjurum til bjargar þegar hún skoraði 2-2 jöfnunarmarkið á 97. mínútu. Alls níu mínútum var bætt við en fleiri urðu mörkin ekki.  

Það er því enn mikil spenna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Ajax heimsækir PSG síðar í kvöld en þar getur Ajax með sigri tryggt sig áfram í 16-liða úrslit.

Glódís og félagar í Bayern komu sér í góða stöðu með jafnteflinu áðan. Endanleg niðurröðun mun svo liggja fyrir næsta þriðjudag þegar síðasta umferðin fer fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×