Fótbolti

Súkkulaðiregn stöðvaði leik Dortmund

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Dortmund hjálpa til við að fjarlægja súkkulaðið af vellinum.
Leikmenn Dortmund hjálpa til við að fjarlægja súkkulaðið af vellinum. Leon Kuegeler/Getty Images

Gera þurfti hlé á leik 1. FC Köln og Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær eftir að áhorfendur köstuðu súkkulaðipeningum inn á völlinn.

Stuðningsmenn beggja liða köstuðu súkkulaðipeningum inn á völlinn í mótmælaskyni gegn fjárfestingatillögu þýska knattspyrnusambandsins. Fjárfestingatillagan felur í sér að selja hluta af sjónvarpsrétti þýsku deildarinnar til að sækja aukið fjármagn.

Súkkulaðiregnið átti sér stað á tólftu mínútu leiksins sem átti að tákna það að stuðningsmenn þýsku liðanna líta á sig sem tólfta mann liðsins.

Gjörningurinn varð til þess að gera þurfti átta mínútna hlé á leiknum á meðan leikmenn beggja liða aðstoðuðu vallarstarfsfólk við að fjarlægja súkkulaðipeningana.

Leikurinn hélt þó áfram að lokum og gestirnir frá Dortmund unnu öruggan 4-0 sigur. Donyell Malen skoraði tvö mörk fyrir gestina og þeir Niclas Füllkrug og Youssoufa Moukoko bættu sínu markinu hvor við.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn sjá til þess að gera þurfi hlé á leikjum vegna mótmæla þeirra gegn fjárfestingartillögunni. Tennisboltaregn í leik Bochum og Union Berlin í síðasta mánuði hafði sömu áhrif, sem og almenn mótmæli í viðureign Heidenheim og Wolfsburg í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×