Fótbolti

Réðist á lands­liðs­þjálfara Gana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Hughton hefur stýrt ganverska fótboltalandsliðinu frá því í mars í fyrra.
Chris Hughton hefur stýrt ganverska fótboltalandsliðinu frá því í mars í fyrra. getty/Jared C. Tilton

Maður var handtekinn fyrir að ráðast á þjálfara ganverska karlalandsliðsins í fótbolta eftir óvænt tap þess fyrir Grænhöfðaeyjum á Afríkumótinu í gær.

Gana tapaði fyrir Grænhöfðaeyjum, 2-1, í fyrsta leik sínum á Afríkumótinu. Garry Rodrigues skoraði sigurmark Grænhöfð­eyinga í uppbótartíma.

Stuðningsmenn Gana voru langt frá því að vera sáttir með þessi úrslit og létu óánægju sína í ljós á Stade Félix Houphouët Boigny í Abidjan, Fílabeinsströndinni þar sem mótið fer fram.

Eftir leikinn greindi blaðamaðurinn Saddick Adams svo frá því að stuðningsmaður Gana hefði ráðist á landsliðsþjálfarann Chris Hughton á hóteli ganverska liðsins. Forráðamenn þess, sem voru viðstaddir, komu Houghton til bjargar. Stuðningsmaðurinn var svo handtekinn.

Hughton tók við Gana fyrir tæpu ári. Liðið hefur aðeins unnið fjóra af ellefu leikjum undir hans stjórn.

Hughton er þrautreyndur þjálfari en hann hefur meðal annars stýrt Newcastle United, Birmingham City, Norwich City og Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×