Fótbolti

Leik­menn misstu með­vitund í flug­vélinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Gambíu sést hér saman í flugvél eins og sjá mátti á samfélagsmiðlum sambandsins.
Leikmenn Gambíu sést hér saman í flugvél eins og sjá mátti á samfélagsmiðlum sambandsins. @TheGambiaFF

Litlu munaði að illa færi þegar gambíska landsliðið var á leiðinni á Afríkumótið í knattspyrnu í gær. Eftir aðeins nokkrar mínútna flugferð var ljóst að eitthvað mikið var að og leikmenn liðsins í lífshættu. Flugvélinni var snúið til baka og lenti hún eftir aðeins tíu mínútna martraðarflug.

Leikmenn og starfsmenn misstu meðvitund í fluginu þar sem súrefnisskortur var í flugvélinni og loftþrýstingurinn féll inn í vélinni.

Tom Saintfiet, þjálfari Gambíu, segir að litlu hafi munað að mjög illa færi en liðið hans var þarna að ferðast í fimmtíu manna flugvél frá Banjul, höfuðborg Gambíu, til Fílabeinsstrandarinnar.

Flugvélin var leiguflug frá flugfélagi Fílabeinsstrandarinnar en flugfélagið segir að verið sé að skoða hvað gerðist í vélinni.

„Við vorum hreinlega að deyja í vélinni. Það var ekkert súrefni í vélinni, allir sofnuðu, misstu svolítið meðvitund og flugmaðurinn ákvað eftir að tíu mínútur að lenda til að bjarga lífi okkar. Það duttu engar súrefnisgrímur niður þegar loftþrýstingurinn féll. Ég er tilbúinn að deyja fyrir Gambíu en bara inn á fótboltavellinum ekki utan hans. Ég hélt um tíma að ég væri að deyja,“ sagði Tom Saintfiet við ESPN.

Saidy Janko, fyrrum leikmaður Manchester United, tjáði sig um atvikið á samfélagsmiðlum.

„Óásættanlegt. Eftir að hafa ferðast í 32 tíma í heildina frá æfingabúðunum í Sádí Arabíu með löngum stoppum í Istanbul og Casablanca þá áttum við að fljúga frá Gambíu til Fílabeinsstrandarinnar í dag til að keppa í Afríkukeppninni. Um leið og við stigum inn í litlu flugvélina sem átti að fljúga með okkur þá tókum við eftir miklum hita inn í vélinni en flugþjónarnir sögðu að loftkælingin færi í gang þegar við kæmust í lotið,“ skrifaði Saidy Janko.

„Þessi mikli hiti ásamt súrefnisskorti sá til þess að margir voru með mikinn hausverk og rosalegan svima. Enn fremur fór fólk að missa meðvitund stuttu eftir að við fórum í loftið,“ lýsir Janko.

Gambía er í riðli með Senegal, Kamerún og Gíneu. Fyrsti leikur liðsins er á móti Senegal eftir þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×