Íslenski hópurinn kom til München frá Austurríki í gær eftir tvo sigra í vináttulandsleikjum.
Viktor Gísli var með á æfingu í gærkvöld, sem fram fór í íþróttasal í skóla hér í München, og virtist fullfrískur. Hann var hins vegar ekki með á fyrstu æfingu í Ólympíuhöllinni, þar sem leikurinn við Serba fer fram annað kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson er því eini markvörðurinn á æfingunni sem nú er í gangi en að sögn Kjartans Vídó Ólafssonar, markaðsstjóra HSÍ, eru veikindi Viktors minni háttar. Sú ákvörðun var þó tekin að hann yrði eftir á hóteli landsliðsins í dag, til að gæta ítrustu varúðar.
Aðrir leikmenn íslenska liðsins eru með á æfingunni og ekki er vitað um nein meiðsli sem gætu komið í veg fyrir að einhver þeirra spili gegn Serbum á morgun.
Hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson missti af seinni leiknum við Austurríki, á mánudaginn, vegna veikinda en jafnaði sig fljótt og hefur verið með á æfingum í vikunni.
Fyrsti leikur Íslands á EM er við Serbíu á morgun klukkan 17. Íþróttadeild Sýnar er í München og mun fjalla ítarlega um allt sem tengist leiknum í máli og myndum.