Rúnar Traustason, varðstjóri hjá slökkviliðinu í Norðurþingi, segir í samtali við Vísi að þegar slökkvilið hafi mætt hafi sorpgeymslan verið í ljósum logum.
Hann segir að í geymslunni hafi verið tvær stórar ruslatunnur á hjólum. „Þær voru báðar horfnar og skýlið nánast líka þegar við komum. Oft eru svona skýli alveg upp við húsnæðið en sem betur fer var það ekki þannig í þetta skiptið.“
Að sögn Rúnars var einn dælubíll sendur á vettvang. Slökkt var í geymslunni með nýrri froðutækni. Hann segir ljóst að ekki kvikni í slíkri geymslu af sjálfu sér.
„Hvort það sé íkveikja eða óhapp, tengt flugeldum, maður veit það ekki. En það kviknar ekki í svona geymslu af sjálfri sér.“