Um­fjöllun og við­töl: Tinda­stóll - Álfta­nes 68 - 80 | Ný­liðarnir lögðu Íslandsmeistarana

Arnar Skúli Atlason skrifar
tindast hulda
vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti nýliðum Álftaness í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.

Leikurinn fór rólega af stað og Álftanes komst yfir en Stólarnir voru aldrei langt undan. Douglas Wilson byrjaði kröftuglega og var að skora sjálfur og taka sóknarfráköst og búa til aðrar sóknir fyrir liðsfélaga sína. Hinu megin hélt Þórir skorinu uppi og fékk aðstoð frá Jacob Calloway en þeir félagar héldu liði Tindastóls á floti en Álftanes leiddi eftir fyrsta fjórðung með tveimur stigum.

Annar leikhluti hófst eins og sá fyrri. Álftanes skrefi á undan og voru að fá framlag frá Hauki Helga og Herði. Tindastóll var ekki að ná upp stemmingu í sinn leik og þrátt fyrir mannhaf í stúkunni var ekkert að frétta frá Grettismönnum eða öðrum áhorfendum. Álftanes voru yfir í hálfleik með sex stigum en staðan var 37-43 þeim í vil.

Tindastóll byrjaði að krafti í þriðja leikhluta og minnkaði muninn hægt og rólega og virtust vera að finna taktinn. Heimamenn minnkuðu muninn niður í tvö stig þegar lítið var eftir að fjórðungnum en það var Haukur Helgi sem kláraði hann með því að verja skot frá Calloway og fyrir lokaleikhlutann var munurinn tvö stig.

Álftanes virtist ætla að stinga af í byrjun fjórða leikhlutans en þá tók Tindastóll leikhlé og eftir það minnkuðu heimamenn muninn niður í eitt stig og leikurinn virtist vera að renna til Skagafjarðar en þá tók Haukur Helgi leikinn yfir. Hann skoraði sjö stig í röð og Douglas bætti við tveimur stigum og gestirnir stungu Stólana af. Tindastóll reyndi að svara en Álftanes hafði alltaf svör og sigldu sigrinum örugglega í höfn 68-80 gegn stemmingslausum Stólum í stemmingslausu Síki á Sauðárkróki í kvöld

Af hverju vann Álftanes?

Voru betri í kvöld, kröftugir og öflugur varnarleikur skóp þennan sigur hjá þeim. Fengu framlag frá sínum aðalmönnum og aukamennirnir settu líka mikilvægar körfur.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Helgi var lang besti maðurinn á vellinum í kvöld, Ville Tahvanainen, Douglas Wilson og Hörður Axel skiluðu flottu framlagi.

Hvað gekk illa?

Tindastólsmenn voru flatir allan leikinn enginn stemming í vörn né sókn. Boltinn gekk hægt og illa og menn að drippla heldur mikið, enginn leikmaður sem tók af skarið og vildi vera maðurinn í kvöld. Lykilmenn langt frá sínu besta.

Hvað gerist næst?

Tindastóll fer í heimsókn í Keflavík á miðvikudaginn 10. janúar klukkan 19:15 , Álftanes fer í Smárann og heimsækir Grindavík klukkan 20:15 fimmtudaginn 11. janúar.

Svavar Atli: „Ef við hefðum haft svarið hefðum við unnið leikinn“

Svavar Atli Birgisson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, var að vonum svekktur með tapið þegar hann var inntur eftir fyrstu viðbrögðum.

„Svekktur með frammistöðu okkar liðs í kvöld það eru fyrstu viðbrögð.“

Þið voruð flatir varnarlega og ekki að ná upp ykkar sóknarleik, hvað veldur?

„Ef við hefðum haft svarið hefðum við unnið leikinn, en ekkert óeðlilegt eftir jólafrí, þetta er þekkt í bransanum en hefði viljað betri viðbrögð frá okkur eftir frí.“

„Við erum búinn að sjá leikina í þessari umferð og flest liðin að hrista af sér jólaspikið en þessi leikur var ekki undanskilinn, allavega af okkar hálfu og Álftanes á hrós skilið fyrir sína frammistöðu í kvöld.“

Kjartan Atli kallar leiðbeiningar inn á völlinnVísir / Anton Brink

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness var helsáttur með að byrja árið á sigri.

„Ánægður og stoltur af strákunum, við bara spiluðum vel og sáttir að byrja árið á sigri.“

Hann sagði að varnarskipulagið hefði skipt sköpum en Stólarnir hefðu einnig staðið sína vakt varnarlega

„Við vorum bara í okkar varnareglum aðallega og við aðlöguðum okkur eitthvað að því hvernig Tindastóll spilar, en meira svona með okkar prinsipp akkúrat núna og erum að skipta mikið á hindrunum og svona, strákarnir eru bara hreyfanlegir á fótunum og eru að gera þetta vel.“

„Stólarnir náðu okkur nokkrum sinnum, gerðu það vel en við fengum ekkert auðvelt í kvöld frá þeim, þeir spiluðu mjög flottan varnarleik og þvinguðu okkur í hluti sem okkur leið ekki alltof með vel og þeir voru að berjast við að komast inn í leikinn í þriðja en við stóðum það af okkur og svo kom áhlaupið okkar í fjórða og þá sprakk leikurinn í sundur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira